Erlent

Íhalds- og Verkamannaflokkur hefja aftur viðræður um Brexit

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Corbyn og May, leiðtogar stærstu flokka Bretlands.
Corbyn og May, leiðtogar stærstu flokka Bretlands. Nordicphotos/AFP
Viðræður ríkisstjórnar Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, við Verkamannaflokkinn um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hófust á ný í gær. Fyrsta lota viðræðna bar ekki árangur og fékk May nokkra gagnrýni á sig frá öðrum úr Íhaldsflokki fyrir að leita á náðir stjórnarandstöðunnar.

Algjör pattstaða hefur ríkt á breska þinginu um Brexit. Þingið hefur í þrígang hafnað þeim samningi sem May-stjórnin náði við ESB um útgöngu en hefur sömuleiðis mistekist að ná saman um aðra nálgun í útgöngumálinu. Þá hefur þingið einnig hafnað samningslausri útgöngu og hefur því þurft að fresta útgöngu í tvígang.

Nigel Evans, Íhaldsmaður og annar stjórnenda hinnar áhrifaríku 1992-nefndar flokksins, er sér meðal annars um vantrausts­atkvæðagreiðslur, sagði við BBC í gær að May ætti að segja af sér eins og skot. „Eina leiðin út úr þessari pattstöðu er að Íhaldsflokkurinn fái nýjan leiðtoga,“ sagði Evans. Hann bætti því svo við að May væri nú að leita til Jeremys Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, þegar hún ætti að vera að leita til þjóðarinnar.

Ósáttir Íhaldsmenn fengu það í gegn í vikunni að viðbótarlandsfundur yrði haldinn í næsta mánuði. Þar munu fulltrúar flokksins hvaðanæva af Bretlandi ræða um ráðgefandi vantrauststillögu á hendur May.

Þetta er gert þar sem þingmenn mega ekki lýsa yfir vantrausti á May fyrr en í desember sökum þess að niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu í desember síðastliðnum var May í hag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×