Matvælastofnun fylgist nú náið með veikindum í hrossum sem komið hafa upp á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurlandi og á Vesturlandi. Einkenni veikindanna minna á hitasótt annars vegar og smitandi hósta hins vegar.
Í tilkynningu frá stofnuninni segir að flest bendi til að smitefni sem urðu landlæg hér á landi í kjölfar faraldra árin 1998 og 2010 séu að minna á sig.
Hestarnir verða alla jafna ekki alvarlega veikir en fylgjast þarf með þeim og kalla til dýralækni ef líkamshiti mælist hærri en 38,5 gráður.
