Ákvörðunin var tekin af Þjóðaröryggisráði Bretlands í gær að því er fram kemur í Financial Times. Ákvörðun um að heimila Huawei að taka þátt í upppbyggingu á 5G kerfum á Bretlandseyjum var tekin þrátt fyrir að Gavin Williamson, varnarmálaráðherra, hafi lýst áhyggjum af áhrifum þess á samband Breta við stjórnvöld í Washington.

Ekki borið skugga á samskipti Bretlands og Kína
Bretland er hluti af „Five Eyes“ öryggisbandalaginu ásamt Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Á meðan bæði Ástralir og Nýsjálendingar hafa samþykkt að útiloka Huawei hafa Bretar alltaf verið fremur opnir. Þá hefur ekki borið skugga á diplómatísk samskipti Breta og Kínverja en Philip Hammond, fjármálaráðherra Bretlands, fer á næstunni til Kína til að styðja við þátttöku Breta í samgönguáætlun kínverskra stjórnvalda (Belt and Road Initiative).Í FT kemur fram að ákvörðun Þjóðaröryggisráðs Bretlands um að leyfa Huawei að taka þátt í uppbyggingu kerfanna hafi verið tekin einróma. Ákvörðunin felur hins vegar í sér að Huawei mun ekki koma nálægt svokölluðum miðlægum kerfum eða kjarnakerfum en það eru þau kerfi sem geyma viðkvæmar upplýsingar eins og persónuupplýsingar notenda og greiðsluupplýsingar þeirra. Annar búnaður, sem Huawei getur orðið birgir fyrir eru loftnet, símstöðvar, ýmis fjarskiptavirki og sendingarbúnaður. Upplýsingar streyma í gegnum þessar tegundir búnaðar en eru ekki vistaðar þar og þar með er ekki talin hætta á því að upplýsingunum verði miðlað til óviðkomandi aðila.

Skylt að deila upplýsingum um netöryggi
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákvað hins vegar í mars síðastliðnum að verða ekki við kröfum bandarískra stjórnvalda um að útiloka Huawei frá uppbyggingu á 5G farsímakerfum í aðildarríkjum ESB. Aðildarríkjunum verður gert skylt að deila upplýsingum sín á milli um netöryggisógnir við uppbyggingu á 5G kerfum og þannig móta stefnu um hvernig eigi að takast á við slíkar ógnir.Huawei er stærsti birgir í heiminum á sviði farsímakerfa. Þá er fyrirtækið næstsöluhæsti framleiðandi snjallsíma á heimsvísu á eftir Samsung. Forsvarsmenn Huawei hafa ávallt hafnað því að fyrirtækinu sé í reynd stjórnað af kínverskum stjórnvöldum og vísað því á bug að hægt sé að nota búnað fyrirtækisins við njósnir. Þegar ákvörðun Þjóðaröryggisráðs Bretlands lá fyrir lét talsmaður Huawei hafa eftir sér við FT að bresk fyrirtæki og neytendur myndu nú njóta aðgangs að hröðustu og áreiðanlegustu farsímakerfunum. Þá væri ánægjulegt að stjórnvöld í Bretlandi nálguðust ákvarðanir sínar um mikilvæg mál út frá staðreyndum.