Um er að ræða hugmynd að flugfélagi þar sem stefnan er sett á umhverfisvænar flugsamgöngur. Áheit hafa verið skráð á vefsíðunni Fly Icelandic. Ástþór hefur áform um plastlausar flugferðir þar sem fólki á að gefast kostur á að breyta farmiðum allt fram að síðustu mínútum fyrir brottför. Hann segist vera með reynslumikla menn með sér í liði, þar á meðal fyrrum fjármálastjóra flugvélaframleiðandans Airbus.
„Það sem ég er að bjóða er að ef fólk sameinast um að koma á fót félagi þá getum við aðstoðað með því að leggja til flugreksturinn, við getum komið með flugrekstrarleyfi, vélar á tiltölulega skömmum tíma. Við bjóðum fólki að taka þátt í verkefninu með því að kaupa umhverfisvænar flugmílur á heildsöluverði,“ segir Ástþór.
Með samhentu átaki vonast forsvarsmenn verkefnisins til að hægt sé að fylla upp í það skarð sem myndaðist í íslenskum flugsamgöngum með falli WOW air. Á heimasíðu félagsins gefst fyrrverandi starfsmönnum WOW air kostur á að skrá áhuga á að starfa með Fly Iceland.
„Þetta verður rekið á svokölluðum „block chains“ sem færir öryggi þannig mögulegt er að breyta farmiðum alveg fram að brottför, án endurgjalds,“ segir Ástþór.
Hvernig hefur verið tekið í hugmyndina, hvernig hefur gengið?
„Á fyrsta sólarhringnum komu 277 skráningar og tæpar 100 milljónir búnir að skrá sig fyrir forkaupsrétt að flugmílunum,“ sagði Ástþór.
Ertu bjartsýnn á að þetta gangi eftir?
„Já við erum komin með nokkur góð prósent upp í það sem þarf. Við höfum þessar vélar og getum byrjað með tvær til fjórar vélar eftir því sem þarf með tiltölulega skömmum fyrirvara. Við höfum þessar vélar og getum gert þetta. Ég er hræddur um að ef það kemur ekki annað öflugt íslenskt flugfélag sem markaðssetur Ísland erlendis þá mun þetta þróast þannig að erlend félög taki toppana en þau munu aldrei markaðssetja landið með sama hætti og Íslendingar,“ sagði Ástþór.