Sósíalistaflokkur forsætisráðherrans Pedro Sánchez er sigurvegari kosninganna samkvæmt fyrstu útgönguspá með 28,1% atkvæða. Þá hlýtur Lýðflokkurinn sem er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn 17,8% sem er lakasta útkoman í kosningum í sögu flokksins að því er BBC greinir frá. Hægriöfgaflokkurinn Vox fær samkvæmt þessu 12,1% atkvæða, flokkurinn Við getum fær 16,1% og Borgarar 14,4% samkvæmt útgönguspá.
Viðlíka sundrung og ríkt hefur að undanförnu í spænskum stjórnmálum hefur vart sést á síðustu árum og þykir líklegt að erfitt verði að mynda ríkisstjórn. Kjörstaðir opnuðu í morgun en fimm flokkar börðust um atkvæði kjósenda. Á vinstri vængnum sækist Sósíalistaflokkur Pedro Sánchez forsætisráðherra, og flokkurinn Podemos, eða „Við getum”, eftir því að mynda saman ríkisstjórn.

„Eftir klukkan átta í kvöld, þegar kjörkassar verða opnaðir og atkvæðin talin, þurfa allir flokkar að virða niðurstöður kosninganna, standa vörð um lýðræðið, standa vörð um þjóðina og standa vörð um einingu meðal Spánverja,” sagði Santiago Abascal, leiðtogi Vox, í samtali við spænska fjölmiðla eftir að hafa greitt atkvæði.

Fréttin hefur verið uppfærð.