Flugi flugfélagsins Air Iceland Connect til og frá Reykjavíkurflugvelli hefur verið aflýst vegna veðurs.
Áður hafði flugi frá Keflavíkurflugvelli í dag verið aflýst en komum sem áætlaðar voru síðdegis hafði verið frestað til kvölds. Frestanir Air Iceland Connect koma fram á vef flugfélagsins en RÚV greindi frá.
Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Air Iceland Connect staðfestir, í samtali við Vísi, að félagið hafi þurft að aflýsa ferðum til og frá Akureyri, Ísafirði og Egilsstöðum. Vélarnar voru allt að því fullbókaðar og segir Árni því hafi ferðaáætlanir á þriðja hundrað manns raskast.
Árni segir aðgerðir hafnar við að koma til móts við farþega. Þjónustuver flugfélagsins verður opið lengur í kvöld og sms hafa verið send til farþega með nýjustu upplýsingum. Árni segir að reynt verði að koma farþegum sem ekki komast í háloftin í dag í flug sem fyrst.
Árni segist gera ráð fyrir því að settar verði upp aukavélar þegar færi gefst á morgun til þess að greiða úr flækjunni
