Þetta er meðal þess sem fram á að koma í fjárfestingakynningu sem Fréttablaðið segir að Skúli hafi látið útbúa um hið nýja lággjaldaflugfélag. Skúli vildi hvorki staðfesta né vísa þessum fregnum á bug þegar fréttastofan hafði samband við hann nú í hádeginu.
Í kynningunni, sem dagsett er 3. apríl, á meðal annars að koma fram að nýja flugfélagið hafi í hyggju, í upphafi, að reka fimm Airbus-farþegaþotur, fjórar af gerðinni A321neo og eina af gerðinni A320neo.
Ætlunin sé að reka flugfélag sem fylgir hinni hörðu lággjaldastefnu sem WOW air iðkaði á fyrstu árum flugfélagsins.
Hafi lært af falli WOW
Kynningin gerir að sama skapi ráð fyrir því að Skúli og aðrir lykilstarfsmenn WOW munu eiga 51 prósents hlut í nýja félaginu. Þeir sem munu leggja til fyrrnefnda 40 milljónir dala fari því með 49 prósent hlut.Nýja flugfélagið ætli sér að öðlast flugrekstrarleyfi á þeim forsendum að „að það sinni fyrstu vikurnar leiguverkefnum fyrir stórt evrópskt flugfélag, því takist að kaupa helstu eignir þrotabús WOW air, þar á meðal vörumerkið, það nái samkomulagi við leigusala um rekstur á fimm flugvélum og enn fremur að félaginu takist að sækja sér nægt fjármagn til þess að hefja starfsemi,“ eins og segir í frétt Fréttablaðisins.
Þar segir ennfremur að í kynningunni standi að Skúli og hans fólk hafi „lært sína lexíu“ af falli WOW og muni því halda sig við hreinræktaða lággjaldastefnu - sambærilega þeirri sem WOW studdist við á fyrstu árunum.
Uppfært klukkan 12:39. Í fyrri útgáfu var haft eftir Fréttablaðinu að nýja flugfélagið ætti að heita NewCo. Um var að ræða skammstöfun fyrir New Company, nýtt fyrirtæki.