Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi félagi Sigurðar Inga Jóhannsson, samgönguráðherra, í Framsóknarflokknum, er á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt viðbragðsáætlun ríkisstjórnarinnar vegna falls Wow air í vikunni. Ekkert hafi verið gert til að bregðast við gjaldþrotinu efnahagslega, aðeins til að koma farþegum til síns heima.
Sigurður Ingi varði aðgerðir ríkisstjórnarinnar í viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun og sagði að misskilnings gætti um eðli viðbragðsáætlunarinnar. Hvað samgönguráðuneytið varðaði hafi hún fyrst og fremst gengið út á bein áhrif á farþega í upphafi. Mikilvægt hafi verið talið að hafa stjórnkerfið tilbúið fyrir slíkt, ekki síst ef þrot félagsins hefði átt sér stað á tíma þegar ferðamannastraumurinn væri stríðari.
„Ef menn væru ekki undirbúnir hefði orðið panikástand, líka núna á fimmtudaginn. Af því að við vorum undirbúin , og það var búið að vinna þetta þétt, bæði með öllum stofunum ríkis sem að þessu koma, auðvitað búið að ræða við Icelandair áður en einnig haft samband við önnur flugfélög, þá hefur þetta gengið framar vonum,“ sagði Sigurður Ingi.

Ákvörðun Icelandair og Indigo styrkti mat ríkisstjórnarinnar
Hvað efnahagslegar aðgerðir varðaði sagði ráðherrann að ríkisstjórnin hafi áður metið það svo að flugfélögin væru ekki svo kerfislega mikilvæg að ástæða væri til að ríkið gripi inni í til að bjarga þeim. Fjölmörg önnur félög væru með ferðir til og frá landinu.Vísaði Sigurður Ingi til fordæma erlendis þar sem ríkið hefur stigið inn í rekstur flugfélaga eins og í tilfelli Air Berlin í Þýskalandi. Höggið af gjaldþroti þess félags hafi lent á þýskum skattgreiðendum.
Þetta mat ríkisstjórnarinnar að ekki væri rétt að stíga inn í rekstur Wow air hafi styrkst við það tvö félög sem séu góð í flugrekstri, Icelandair og Indigo Partners, hafi skoðað þann möguleika fyrir sig en fallið frá honum.
„Þá er stór spurning: á ríkisvaldið sem er ekki gott í flugrekstri að fara inn í svona hluti með þá áhættu sem þar er? Það var mat okkar að gera það ekki og ég held að það skilji það mjög margir að það hafi verið skynsamleg ákvörðun,“ sagði hann.