Það er ekki glæsilegt ástandið í Vestmannaeyjum þessa dagana eins og hjá öðrum sveitarfélögum sem reiða sig á loðnuvertíðina því það er loðnubrestur, enginn loðna finnst og engin veit hvar hún er. Áfallið er mikið eins og í Vestmannaeyjum. Íris Róbertsdóttir er bæjarstjóri þar.
„Auðvitað er þetta grafalvarlegt þegar við lendum í svona, þetta er áfall. Vertíðin í fyrra var upp á átján milljarða og þetta eru sex milljarðar, sem eru að fara hér út úr samfélaginu þar sem 1/3 af loðnukvótanum er vistaður í Eyjum. Við reynum að bera okkur vel en áfallið er mikið“, segir Íris.
Hún segir að loðnubrestinn hafi verulega áhrif á allt í Vestmannaeyjum.
„Bara launatekjurnar út úr einni svona vertíð eru 620 milljónir fyrir heimili í Vestmannaeyjum og þetta hefur bein áhrif á rúmlega 280 heimili, sem eru 16% heimila hérna, sem hafa fengið uppgrip, annað hvort á sjó eða loðnuvertíð“.
Í vikunni var haldinn fjölmennur opinn fundur í Vestmannaeyjum um loðnubrestinn, sem Íris var mjög ánægð með.
„Það er ýmislegt sem ríkið getur gert til þess að laga starfsumhverfi greinarinnar. Það er meðal annars veiðigjöldin og það er líka kolefnisgjaldið, flotinn hér á Íslandi er að greiða kolefnisgjald þó að hann sé búin að ná markmiðum Parísarsáttmálans og það er eini staðurinn í heiminum, sem verið er að gera það.
Og svo eru það auðvitað stimpilgjöld á atvinnutæki, sem eru fiskiskip, einu atvinnutækin, sem bera stimpilgjöld og svo þessi þunga áhersla á loðnurannsóknirnar, við þurfum að vita meira, það er bara allt, allt of dýrt að vita ekki meira um loðnuna“, segir Íris.
