75 ára kona viðurkennt að hafa stungið sjö ára dreng til bana í svissnesku borginni Basel síðdegis í gær. Lögregla rannsakar málið, en ekkert hefur verið gefið upp um ástæðu árásarinnar.
Drengurinn var á leið heim úr skóla þegar konan réðst á hann. Kennari drengsins kom að drengnum þar sem hann lá særður í götunni St Galler-Ring.
Sjúkralið var kallað til en ekki tókst að bjarga lífi drengsins og var hann úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi.
Konan gaf sig fram við lögreglu skömmu eftir árásina og viðurkenndi þátt sinn í henni. Talsmaður lögreglu segir að ekkert liggi fyrir um ástæður árásarinnar.
Basler Zeitung segir frá því í dag að konan hafi ekki þekkt drenginn, en henni hefur verið gert að gangast undir geðrannsókn.
Eldri kona viðurkennir að hafa banað sjö ára dreng í Sviss
Atli Ísleifsson skrifar
