Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri Guðmundar Runólfssonar hf., efast um að þeir hefðu lagt út í fjárfestinguna hefðu þeir vitað hver veiðigjöldin yrðu, og segir þau glæpsamlega há; þau séu að stúta útgerð hringinn í kringum landið. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.
Útgerðarsaga fjölskyldufyrirtækisins Guðmundar Runólfssonar í Grundarfirði nær yfir sjötíu ár en gamla fiskvinnsluhúsið var orðið úrelt. Framtíð landvinnslu var undir.

Niðurstaðan var að byggja nýtt 2.700 fermetra vinnsluhús. Vélarnar voru ræstar í lok janúar og þessa dagana eru vinnslulínurnar að komast á fulla ferð.
„Við segjum það alveg kinnroðalaust: Þetta er ein fullkomnasta fiskvinnsla á Íslandi og þótt víðar væri leitað,“ segir framkvæmdastjórinn.

„Við erum að vinna núna þorsk og karfa. Það eru sem sagt tvær línur inni í húsinu og meirihlutinn af þessu er að fara ferskt,“ segir Rósa Guðmundsdóttir framleiðslustjóri.
Með nýjustu tækni, eins og í skurðarvélum, er mannshöndin leyst af hólmi. Markmiðið er að hámarka nýtingu og verðmæti fiskaflans.

„En álag kannski á starfsfólk á að vera minna, líkamlegt álag. Að vera að lyfta og færa til kassa, og þess háttar. Það ætti að minnka hjá okkur,“ segir Rósa.
Fjárfestingin nemur hátt í tveimur milljörðum króna en þegar spurt er hvort hún borgi sig kemur hik á framkvæmdastjórann.
„Hefðum við vitað hver veiðigjöldin voru á síðasta ári þá hefðum við sennilega aldrei farið í þessa fjárfestingu. Þau voru bara, vil ég orða það; glæpsamlega há. Og eru að stúta útgerð hringinn í kringum landið."

Þetta er bara alveg hræðilegur landsbyggðarskattur. Það verður bara eitthvað að gerast,“ segir framkvæmdastjóri Guðmundar Runólfssonar hf.
Fjallað verður um mannlíf í Grundarfirði í þættinum „Um land allt" á Stöð 2 á mánudagskvöld.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: