Innlent

Fjórir milljarðar til viðbótar í samgöngumál

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fjármálaráðherra kynnti áætlunina í dag.
Fjármálaráðherra kynnti áætlunina í dag. Vísir/Arnar
Gert er ráð fyrir fjögurra milljarða króna viðbótaraukningu til samgönguframkvæmda frá og með árinu 2020 samkvæmt fjármálaætlun fyrir árin 2020 til 2024 sem kynnt var í dag.

Þetta er meðal þess sem kom fram í kynningu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra sem kynnti fjármálaáætlunina á blaðamannafundi í fjármálaráðuneytinu í dag.

Í tilkynningu á vef fjármálaráðuneytisins segir að fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024 endurspegli „sterka stöðu og festu í stjórn opinberra fjármála í hægari takti hagkerfisins.“

Meðal annars er gert ráð fyrir að fæðingarorlof lengist í 12 mánuði á árunum 2020 og 2021 en kostnaður af þeirri aðgerð nemur 900 milljónum króna árið 2020, 2,7 milljarða króna 2021 og 3,8 milljarða króna frá og með árinu 2022.

Gert er ráð fyrir að stofnframlag til almennra íbúða hækki um 2,1 milljarða króna frá og með árinu 2020 til ársins 2022. Þá er gert ráð fyrir að komið verði á fót Þjóðarsjóði á árunum sem áætlunin nær til en nánar má lesa um áætlunina á vef ráðuneytisins.

„Í kjölfar samfellds hagvaxtarskeiðs undanfarinna ára er fjárhagsleg staða ríkissjóðs sterk. Hefur ríkissjóður verið rekinn með afgangi undanfarin ár og er gert ráð fyrir áframhaldandi afgangi af rekstri ríkissjóðs á árunum 2020–2024 um 0,8-1% af VLF á hverju ári.

Mikill árangur í lækkun skulda hins opinbera og einkageirans, auk efnahagslegra breytinga, hefur gefið þjóðarbúinu aukinn viðnámsþrótt komi til ytri áfalla. Heildarskuldir ríkissjóðs hafa lækkað hratt á undanförnum árum, frá því þær náðu hámarki í 1.501 ma.kr. árið 2012, en reiknað er með að þær nemi rúmlega 830 ma.kr. í lok árs 2019,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Klippa: Fjármálaráðherra kynnti fjármálaáætlun 2020-2024



Fleiri fréttir

Sjá meira


×