Íslenska liðið vann 4-1 sigur á Hvíta-Rússlandi en hafði áður unnið 2-1 sigur á Slóveníu og gert 3-3 jafntefli við heimamenn í Þýskalandi.
Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði tvö mörk í leiknum í dag og þeir Andri Fannar Baldursson og Andri Lucas Guðjohnsen eitt mark hvor. Andri Fannar skoraði úr vítaspyrnu sem Andri Lucas fékk.
Davíð Snorri Jónasson er að gera frábæra hluti með strákana en þetta er í fyrsta sinn í sjö ár sem 17 ára landslið karla kemst í lokakeppni EM.
Í dag, þriðjudaginn 26. mars, fagnar Knattspyrnusamband Íslands 72 ára afmæli sínu. Fjórtán félög og íþróttabandalög stofnuðu KSÍ 26. mars 1947 og var Agnar Klemens Jónsson fyrsti formaður KSÍ. Það er gaman að geta fagnað þessum tímamótum með nýjum farseðli á EM.
Hér fyrir neðan má sjá strákana fagna EM-sætinu eftir leikinn í dag. Knattspyrnusamband Íslands setti þetta skemmtilega myndband inn á fésbókina eftir leikinn.