Erlent

Greiða aðeins atkvæði um útgöngusamninginn stefni í samþykkt

Kjartan Kjartansson skrifar
Hunt utanríkisráðherra segist vonast til að atkvæði verði greidd um útgöngusaminginn á morgun en að atkvæðin verði að vera til staðar.
Hunt utanríkisráðherra segist vonast til að atkvæði verði greidd um útgöngusaminginn á morgun en að atkvæðin verði að vera til staðar. Vísir/EPA
Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, segir að breska þingið muni aðeins greiða atkvæði um útgöngusamning Theresu May, forsætisráðherra, á morgun ef ríkisstjórn telur sig hafa nægilegan fjölda atkvæða til að fá hann samþykktan.

Útgöngusamningi May við Evrópusambandið var hafnað öðru sinni með afgerandi meirihluta í síðustu viku. Þá höfnuðu þingmenn að ganga úr sambandinu án samnings en samþykktu tillögu um að fresta útgöngunni.

Í kjölfarið komu upp hugmyndir um að May myndi leggja samning sinn fyrir þingið í þriðja skiptið á morgun. Hunt segir nú að „varfærin hvatningarmerki“ séu til staðar um að May samningurinn hljóti náð fyrir augum þingmanna, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

„Hættan á engum samningi, að minnsta kosti hvað breska þingið varðar, hefur minnkað nokkuð en hættan á lömun vegna Brexit hefur ekki gert það,“ sagði Hunt.

Aðildarríki Evrópusambandsins verða að samþykkja ósk Breta um að fresta útgöngunni sem var áformuð 29. mars. Þingið samþykkti að fresta henni annað hvort til 20. júní, verði útgöngusamningur samþykktur fyrir 20. mars eða ótímabundið.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að möguleikinn á að Brexit verði frestað eða að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram hafi hrætt einhverja þingmenn Íhaldsflokksins sem hafa verið andsnúnir útgöngusamningi May til þess að styðja hann. Enn vantar þó töluvert upp á að meirihluti sé fyrir samningnum á þingi.


Tengdar fréttir

Þingið vill að útgöngu úr ESB verði frestað

Breska þingið samþykkti tillögu um að fresta útgöngu úr Evrópusambandinu til að minnsta kosti 30. júní næstkomandi til að freista þess að koma sér saman um samning. Dagurinn var almennt góður fyrir Theresu May forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×