Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurnesjum hefur til rannsóknar fíkniefnamál sem upp kom fyrr í mánuðinum þegar íslenskur karlmaður á sextugsaldri reyndi að smygla rúmlega einum og hálfum lítra af amfetamínvökva inn í landið.
Maðurinn var að koma frá Barcelona á Spáni þegar tollverðir stöðvuðu hann í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Í farangri hans voru tvær 780 millilítra rauðvínsflöskur sem reyndust innihalda amfetamínvökvann.
Maðurinn er nú í gæsluvarðhaldi og miðar rannsókn málsins að sögn lögreglu vel.
