Norska hugbúnaðarfyrirtækið Maritech hefur keypt um helmings hlut í íslenska sprotafyrirtækinu Sea Data Center. Sea Data Center er alþjóðleg upplýsingaveita fyrir sjávarútveg, þar er til dæmis að finna nýjustu upplýsingar um þróun á mörkuðum, það er þróun hrávöruverðs, útflutningsverð og smásöluverð hjá verslanakeðjum til dæmis í Bretlandi. Þar er líka að finna upplýsingar um veiði og kvótanýtingu auk eigin greiningar og annarra ásamt hlekkjum á sjávarútvegsfréttir.
„Samningurinn felur í sér að Maritech, sem er eitt stærsta hugbúnaðarfyrirtækið fyrir sjávarútveg, mun meðal annars selja gögn frá okkur í sínu kerfi. Við stefnum á að viðskiptavinir geti borið eigin gögn saman við markaðsupplýsingar til að bæta ákvarðanatöku. Þetta verður stórt skref inn í framtíðina fyrir sjávarútveg,“ segir Anna Björk Theodórsdóttir, framkvæmdastjóri Sea Data Center, í samtali við Markaðinn.
Hún segir að Sea Data Center muni einnig fá aðgang að stærsta teymi forritara í lausnum fyrir sjávarútveg og því munu þróun kerfa fyrirtækisins ganga hraðar fyrir sig. Auk þess hafi Maritech átta manna greiningarteymi sem muni leggja þeim lið.
Jafnframt muni Sea Data Center verða umboðsaðili fyrir Maritech á Íslandi. „Þeir hafa áður rekið fyrirtæki hér á landi og eru því komnir aftur á markaðinn,“ segir Anna Björk.
Sea Data Center var stofnað fyrir um ári en starfsemin hafði áður verið rekin af greiningardeild ráðgjafarfyrirtækisins Markó Partners. Maritech er með skrifstofur í Noregi, á Spáni, í Kanada og nú á Íslandi.
Maritech fjárfestir í Sea Data Center
Helgi Vífill Júlíusson skrifar

Mest lesið

Tollahækkanirnar geti þjappað Evrópu og Kína betur saman
Viðskipti innlent

Börn fá gefins Barnabónus með helstu nauðsynjun
Viðskipti innlent



Trump boðar „stórfellda“ tolla á lyf en Róbert hefur ekki áhyggjur
Viðskipti erlent

Árni Oddur tekur við formennsku
Viðskipti innlent

Röntgenveldið tekur yfir rekstur Bullseye
Viðskipti innlent

Starfsmenn ríkisins þiggja boð ríkisins
Viðskipti innlent


Arctic Adventures kaupir Happy Campers
Viðskipti innlent