Craig Pedersen, landsliðsþjálfari í körfubolta, hefur gert fjórar breytingar á hópnum sem fer til Belgíu og spilar þar síðasta leikinn í annarri umferð forkeppni EM 2021.
Vitað var að Pedersen þyrfti að gera þrjár breytingar á hópnum þar sem að Jón Arnór Stefánsson og Hlynur Bæringsson lögðu landsliðsskóna á hilluna í gærkvöldi og þá er Haukur Helgi Pálsson á leið til Frakklands í sjúkraþjálfun hjá félagsliði sínu.
Pedersen tók einnig þá ákvörðun að skilja Sigtrygg Arnar Björnsson, leikstjórnanda Grindavíkur, eftir heima fyrir ferðina til Belgíu en inn koma fjórir leikmenn.
Það eru þeir Haukur Óskarsson, Haukum, Collin Anthony Pryor, Stjörnunni, og Njarðvíkingarnir Magic Baginski og Kristinn Pálsson. Allir voru utan hóps í sigrinum gegn Portúgal í gærkvöldi.
Okkar menn voru fyrir sigurinn í gær úr leik á þessu stigi forkeppninnar en nú falla þeir niður í þriðju umferð forkeppninnar þar sem að þeir mæta öðrum tveimur liðum heima og að heiman í von um að komast í sjálfa undankeppnina.
