ÞG Verk hefur selt eða samþykkt kauptilboð í allar íbúðir nema tvær, samtals þrjátíu íbúðir, í fyrstu tveimur húsum á Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur. Þetta staðfestir Davíð Már Sigurðsson, sölu- og markaðsstjóri ÞG Verks, í samtali við Markaðinn.
Fyrir skemmstu var samþykkt eitt kauptilboð um kaup fjárfesta á meira en tíu lúxusíbúðum í húsunum tveimur.
Davíð Már segir aðspurður að kaupendur að íbúðunum þrjátíu, sem voru settar í sölu um mitt síðasta ár, séu Íslendingar. Meðalverð á fermetra hefur verið um 800 þúsund krónur sem hann segir vel viðunandi. Það sé talsvert hærra en gangi og gerist í öðrum nýbyggingum á svæðinu.
Samkvæmt söluvef ÞG Verks eru samanlagt 70 íbúðir í fimm mismunandi byggingum á Hafnartorgi. Eins og áður segir hafa 30 íbúðir í tveimur fyrstu húsunum nú verið seldar og stendur til að setja íbúðir í hinum blokkunum þremur formlega í sölu í næsta mánuði, að sögn Davíðs Más. Þó kemur til greina að ÞG Verk haldi einhverjum íbúðum og eigi þær áfram í tvö til þrjú ár.
Haft var eftir Þorvaldi Gissurarsyni, forstjóra ÞG Verks, í Markaðinum í síðasta mánuði að verkefnið kostaði í heild um 13 til 14 milljarða. Um það bil helmingur fjárhæðarinnar væri lánsfé frá Landsbankanum. „Eins lengi og þarf á að halda,“ svaraði Þorvaldur spurður hve lengi fyrirtækið gæti beðið með að selja eignirnar á meðan markaðsaðstæður væru krefjandi.
„Ég hef engar áhyggjur af Hafnartorgi. Það er ekkert óeðlilegt að svona verkefni taki lengri tíma í markaðssetningu og sölu en hefðbundið húsnæði. Það kemur ekki á óvart. Þetta er allt önnur vara sem verið er að bjóða en annars staðar,“ sagði hann.
