María ólst sjálf upp á Spáni til fimm ára aldurs, á Costa Brava ströndinni. „Pabbi og systkini hans höfðu öll flutt þangað frá Suður-Spáni á fullorðinsárum þar sem mikið var og er um atvinnuleysi á Suður-Spáni og meiri vinnu að hafa í Katalóníu. Þegar ég var krakki voru aldrei neinir Íslendingar á þessu svæði en á því hefur orðið mikil breyting, þar sem bæði er flogið til Barcelona og svo er Iron Man keppnin haldin árlega á svæðinu.“ María fluttist svo til Íslands ásamt móður sinni en hefur alla tíð haldið góðu sambandi við föðurfjölskyldu sína. „Ég hef nánast verið þar með annan fótinn frá 10 ára aldri og hef reynt að fara þangað eins oft og ég kemst. Frá því ég var 17 ára hef ég einungis farið til Lugros, litla fjallaþorpsins okkar, en ég er svo mikið hrifnari af því en Katalóníu. Þar á ég líka ótrúlega marga ættingja með eftirnafnið Gomez. Einnig bjó amma Paz þar, þar til hún dó árið 2000 og föðursystir mín Tita, sem þýðir frænka, Paz, býr þar enn og er hún mín mesta uppáhaldsfrænka enda er bloggið mitt nefnt eftir þeim eða Paz sem þýðir friður á spænsku.“
Dónaskapur að afþakka veitingar
María segist hafa fengið áhuga á eldamennsku þar sem hún sat dáleidd í eldhúsinu hjá ömmu og Titu Paz sem bjuggu alltaf saman. „Hjá þeim snerist allt um að elda og hvað ætti að vera í matinn. En það er mjög algengt hjá konum á Spáni. Spánverjar eru í eðli sínu mjög gestrisnir, þeir elska að bjóða fólki upp á að borða og ef manni er boðinn matur í heimsókn þykir dónaskapur að afþakka. Amma og Tita Paz kenndu mér klárlega mikið í eldhúsinu þá sérstaklega Tita Paz og hún er enn að kenna mér í gegnum símann.“
Hugmyndin að blogginu spratt upp úr því að María var að taka húsið sitt í gegn og langaði að deila sniðugum hugmyndum sem ekki væru of kostnaðarsamar og úr varð lífsstílsbloggið Paz.is. „Svo árið 2018 ákvað ég að breyta vefnum í eingöngu heimilis- og matarblogg og þá fyrst fannst mér ég byrja að blómstra í þessu verkefni enda veit ég ekkert skemmtilegra en að breyta og bæta á heimilinu og elda góðan mat.“