Þetta kemur fram í nýrri skýrslu innri endurskoðanda Varnarmálaráðuneytisins sem birt var í gær. Skýrslan snýr að miklu leyti að ákvörðun Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, að kalla bandarískt herlið heim frá Sýrlandi. Trump tilkynnti ákvörðun sína í desember og var hún tekin gegn ráðum þáverandi varnarmálaráðherra hans, Jim Mattis, sem sagði af sér í kjölfarið.
Sjá einnig: Mattis hættir sem varnarmálaráðherra
Þá tilkynnti Trump einnig að búið væri að sigra Íslamska ríkið, án þess þó að hafa rétt fyrir sér. Sameinuðu þjóðirnar og Bandaríkjamenn áætluðu í sumar að ISIS-liðar væru allt að 30 þúsund talsins í Írak og Sýrlandi. Þá má einnig finna systursamtök Íslamska ríkisins víða um heiminn og áætlað er að um fimmtíu erlendir vígamenn gangi enn til liðs við samtökin í hverjum mánuði.
Einungis 400 til 600 ferkílómetrar af Kalífadæminu eru enn í höndum ISIS-liða en nú segir bandaríski herinn að um tvö þúsund vígamenn haldi enn til í Sýrlandi.
Þrátt fyrir það er talið að margir vígamenn hafi farið í felur. Abu Bakr al Baghdadi, leiðtogi ISIS, hefur ekki verið gómaður og margir aðrir æðstu meðlimir ISIS leika lausum hala. Sérfræðingar hafa lengi séð merki um að samtökin hafi farið aftur í skuggana og undirbúi hefðbundinn skæruhernað og hryðjuverkaárásir í stað þess að reyna að halda yfirráðasvæði.
Þessi þróun er þegar hafin í Írak samkvæmt skýrslunni, þar sem ISIS-liðar gera árásir og fremja morð í dreifðri byggðum landsins þar sem styrkur þeirra er enn mikill. Samtökin hafa aðgang að miklum tekjustofnum í Írak, samkvæmt skýrslunni, og öryggissveitir landsins eru ekki í stakk búnar til að berjast gegn þeim.
Tekist hefur að auka öryggi í borgum Írak og hefur mannfall almennra borgara undanfarna mánuði ekki verið minna síðan í nóvember 2012. Það hefur þó reynst erfitt að eiga við ISIS-liða í dreifðum byggðum Írak, þar sem meirihluta íbúa eru súnnítar.
Þá segir her Bandaríkjanna að öryggissveitir Írak reiði sig mikið á stuðning Bandaríkjamanna, sérstaklega þegar komi að upplýsingaöflun, loftárásum, þjálfun og skipulagningu. Þá segir einnig að leiðtogar öryggissveita Írak séu ekki vel að sér komnir í taktík og eigi erfitt með að halda utan um „grundvallar aðgerðir fótgönguliða“.
Þar að auki hafi mikil spilling komið niður á baráttunni gegn ISIS í Írak.
Sjá einnig: Mennirnir sem enginn vill fá heim
Svipuð staða er í Sýrlandi þar sem Bandaríkin hafa stutt við bakið á regnhlífarsamtökunum Syrian Democratic Forces eða SDF gegn Íslamska ríkinu. SDF inniheldur að mestu sýrlenska Kúrda (YPG) og araba frá norðausturhluta landsins. Varnarmálaráðuneytið telur víst að SDF geti ekki framkvæmt umfangsmiklar aðgerðir gegn Íslamska ríkinu án stuðnings herafla Bandaríkjanna.
<DoD OIG Lead Inspector General Quarterly Report: Operation Inherent Resolve shows an overview of Syrian territorial control. https://t.co/TWQwsodtOC @StateOIG @USAID_OIG pic.twitter.com/xBcfJvVgab
— DoD InspectorGeneral (@DoD_IG) February 4, 2019