Heitavatnsnotkun á höfuðborgarsvæðinu hefur vaxið hraðar heldur en bestu spár um fjölgun íbúa og húsnæðið. Á árum áður fylgdi heitavatnsnotkun á höfuðborgarsvæðinu fjölda íbúa og húsnæðis en undanfarin ár hefur aukningin á heitavatnsnotkun verið hraðari, að sögn Eiríks Hjálmarssonar, upplýsingafulltrúa Veitna, dóttur fyrirtækis Orkuveitunnar, sem sér borgarbúum fyrir heitu vatni.
Þessi þróun hefur orðið til þess að ákveðið var í fyrra að flýta stækkun á varmastöðinni í Hellisheiðarvirkjun en verklok er ekki fyrirhuguð fyrr en í haust.
Eiríkur segir að ágiskanir einar séu tiltækar þegar kemur að því hvað veldur þessari miklu aukningu á heitavatnsnotkun. Hugleiða megi hvort fjölgun ferðamanna hafi áhrif á þessa þróun og tilkoma fjölda nýrra hótela.
Spáð er áframhaldandi frosti næstu daga og hafa Veitur boðað að komið gæti til skerðinga á afhendingu á heitu vatni til stærri notenda á föstudag, þar á meðal sundlauga. Yrði það þá gert til að tryggja heimilum heitt vatn, sem njóta forgangs í þeim efnum.
Eiríkur segir þetta hafa verið áður gert á þessari öld en einu sinni þurfti að skerða vatn í syðsta hluta Hafnarfjarðar og þurfti þá að loka Suðurbæjarsundlaugunni.
Hafa Veitur hvatt fólk til að fara vel með heita vatnið og huga að því hvort hugsanlega sé vatni sóað á heimilum þess eða vinnustöðum.
Notkun heits vatns hefur aukist meira hlutfallslega en nemur fjölgun íbúa

Tengdar fréttir

Mögulegt að heita vatnið skili sér ekki í laugarnar á föstudag
Spáð er áframhaldandi frosti næstu daga og gæti komið til skerðinga á afhendingu á heitu vatni til stærri notenda Veitna á föstudag.