Karen var meðal gesta á ráðstefnunni Íþróttir og ofbeldi sem haldin var í dag í tengslum við Reykjavíkurleikana sem standa yfir.
„Þegar ég var lítil stúlka þá átti ég draum að synda á Ólympíleikunum fyrir Írland. Mamma og pabbi trúðu á mig og studdu mig í átt að draumnum. Írski ólympíuþjálfarinn Derry O'Rourke sá mig og gekk á eftir mér að ganga í sundklúbbinn hans. Hann myndi hjálpa mér að láta draum minn rætast. Hann hringdi stöðugt í foreldra mína og bað um að ég yrði sett í klúbbinn. Ég gekk í sundklúbbinn,“ segir Karen.
„Í stað þess að draumurinn rættist eyðilagði hann líf mitt og fjölskyldu minnar.“
O'Rourke var dæmdur í fangelsi árið 2001 fyrir að brjóta á sundfólki sem hann þjálfaði á áttunda, níunda og tíunda áratug síðustu aldar.
Misnotkun á allan mögulegan hátt
„Hann misnotaði mig andlega, líkamlega, kynferðislega og tilfinningalega þegar ég var lítil stelpa. Frá því ég var tíu ára til sautján ára. Áhrifin sem það hafði á lífið mitt hafa verið hrikaleg,“ segir Karen.Hún hefur líst því í fyrri viðtölum hvernig O'Rourke hafi haft algjöra stjórn á henni. Allt þar til við sautján ára aldur að hún steig upp úr lauginni á stórmóti fyrr en ætlað var. Hún hætti. En martröðinni var ekki lokið.
Í hönd fór meðferð, þar af tvö ár á spítala. Móðir hennar svipti sig lífi eftir að hafa beðið Karen afsökunar á að hafa ekki passað upp á hana sem barn. Karen glímdi við átröskun og þurfti á lyfjameðferð að halda. Örfá ár eru síðan hún jafnaði sig, tæplega 30 árum síðar.
„Það eru alls konar herferðir gegn þessu en fyrir mig er það ekki nóg. Á meðan það er gert mun það fæla fólk frá því að brjóta á börnum en misntokun er raunveruleg. Nákvæmlega það sama og kom fyrir mig fyrir 20-30 árum er enn að gerast.“
Hún muni áfram tala og vekja til vitundar.