Innlent

Fylgir reglum um að fegra byggingar og umhverfi

Atli Ísleifsson skrifar
Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri Seðlabanka Íslands, og verkið umtalaða eftir Gunnlaug Blöndal.
Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri Seðlabanka Íslands, og verkið umtalaða eftir Gunnlaug Blöndal. Fréttablaðið/GVA
Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri og upplýsingafulltrúi Seðlabankans, segir Seðlabankann vera með listaverkaeign sinni að fylgja viðmiðum og stefnum sem opinberir aðilar hafi sett. Tilgangurinn sé að fegra byggingar og umhverfi þeirra.

Þetta kom fram í máli Stefáns Jóhanns í Reykjavík síðdegis fyrr í dag. Hann segir það ekki vera rétt að Seðlabankann sé stórtækur í málverkaeign í samanburði við banka og aðrar opinberar stofnanir. „Þetta er nú ekki mjög stórt þó að þetta séu 320 listaverk sem að Seðlabankinn á,“ segir Stefán Jóhann.

Nokkur umræða hefur sprottið fram í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum eftir að greint var frá því að bankinn hafi, af tillitssemi og vegna kvörtunar sem kom frá starfsfólki og að höfðu samráði við Jafnréttisstofu, tekið niður málverk eftir Gunnlaug Blöndal - málverk af berbrjósta konu sem máluð var um miðja síðustu öld.

Samráð við arkitekta og listfræðinga

Stefán Jóhann segir Seðlabankann hafa haft samráð við arkitekta, sér í lagi þegar núverandi Seðlabankabygging var byggð, um ýmis viðameiri verk. Einnig við listfræðinga um sumt síðar.

„Þetta hefur meira að segja verið sett í lög og reglugerðir að opinberar stofnanir, opinberir aðilar, eigi að fegra og auðga umhverfi sitt, skapa þannig vellíðan og um leið er stuðlað að listsköpun í landinu. Ég hugsa að flestir séu bara þokkalega sáttir með það.“



Það er þá ekki skylt að hafa sérstakt safn undir þetta heldur á þetta að vera til að fegra vinnustaðinn?

„Jú, það er markmiðið. Að það skapist ákveðið heildarsamræmi í útliti innan byggingar og utan í samræmi við þau viðmið sem að arkitektar og listfræðingar hafa.“



Bókfærð verðmæti

Aðspurður um verðmæti safnsins, segir hann ákveðið bókfært verðmæti vera í reikningum bankans á listaverkum. „Það þarf ekki endilega að vera markaðsvirði. Það er sjálfsagt dálítið eitthvað annað.[…] Ég gæti giskað á að það gæti verið eitthvað um 200 milljónir, 300 milljónir, sem væri bókfært í listaverkum,“ segir Stefán Jóhann.

Hann segir að eitthvað að hafi dregið úr kaupum á listaverkum hjá Seðlabankanum miðað við það sem áður var.



Hlusta má á viðtalið við Stefán Jóhann í heild sinni að neðan.



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×