Erlent

Lögreglan dregur í efa lýsingu á árás á þýskan þingmann

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumaður á vettvangi árásarinnar í Bremen.
Lögreglumaður á vettvangi árásarinnar í Bremen. Vísir/EPA
Myndbandsupptaka af árás á Frank Magnitz, þingmann hægriöfgaflokksins Valkosts fyrir Þýskaland (AfD), í Bremen, hefur vakið efasemdir hjá lögreglu og saksóknurum um lýsingar hans á árásinni. Magnitz hélt því fram að hann hefði verið barinn með viðarbarefli og árásarmennirnir hafi ekki hætt fyrr en vegfarendur skárust í leikinn.

Magnitz hlaut alvarlega höfuðáverka eftir að ókunnir menn réðust á hann á mánudagskvöld. AfD hélt því fram að Magnitz hefði verið sleginn í götuna þar sem mennirnir héldu áfram að berja hann með barefli. Magnitz hefur sjálfur leitt líkur að því að árásarmennirnir hafi verið þátttakendur í minningarviðburði um hælisleitanda sem lést í haldi lögreglu fyrir tveimur vikum sem hafi borið kennsl á hann.

The Guardian segir að greining lögreglunnar á upptöku úr öryggismyndavélum sýni að Magnitz hafi verið sleginn í jörðina en að árásarmaðurinn hafi þá flúið af vettvangi ásamt tveimur öðrum mönnum. Engar vísbendingar séu um að sparkað hafi verið í Magnitz eða hann barinn þar sem hann lá í jörðinni. Líklegt sé að hann hafi hlotið höfuðáverkana af því að reka höfuðið í jörðina þegar honum var hrint. Lögreglan hefur lýst árásinni sem pólitískri.

Fulltrúar annarra stjórnmálaflokka hafa fordæmt árásina. AfD segir árásina „svartan dag fyrir lýðræðið“ og segja árásum annarra flokka og fjölmiðla á flokkinn um að kenna. Fulltrúi flokksins lýsti árásinni sem „morðtilræði“.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×