Innlent

Segir Dag hafa fellt tillögu um lækkun hámarkshraða á Hringbraut

Sylvía Hall skrifar
Ólafur F. Magnússon lagði tillöguna fram í maí 2009.
Ólafur F. Magnússon lagði tillöguna fram í maí 2009. Fréttablaðið/Anton Brink
Ólafur F. Magnússon, fyrrum borgarstjóri, segir í samtali við fréttastofu að Dagur B. Eggertsson hafi verið á meðal þeirra sem felldu tillögu sína um lækkun hámarkshraða á Hringbraut og víðar árið 2009. 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði í samtali við Vísi í dag að hann vilji lækka hámarkshraða á Hringbraut. Hann segir hraðbrautir ekki eiga heima í miðjum íbúðahverfum og það hafi nú þegar verið settar fram tillögur um lækkun hámarkshraða á svæðinu.

Ólafur segir einnig að Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi borgarstjóri, hafi gert að engu „ítarlega útfærðar áætlanir“ Ólafs um aukið umferðaröryggi barna á leið í skóla. Hann segist hafa verið áratug á undan í umferðaröryggismálum Reykvíkinga og hafi hann fengið lengri tíma í borgarstjórastóli væri búið að lagfæra mörg þau vandamál sem eru til staðar. 



Lagði fram tillöguna til þess að auka öryggi barna á leið í skóla

Í maí 2009 setti Ólafur fram umferðaröryggistillögur í borgarráði þar sem hann lagði til lækkun hámarkshraða á syðri hluta Háaleitisbrautar, Bústaðavegi, Hofsvallagötu og Hringbraut. Í fundargerð frá 28. maí 2009 má finna tillögu Ólafs.

„Borgarráð samþykkir að nú þegar verði hafinn undirbúningur að gerð 30 km svæðis á Hringbraut, sem nái frá gatnamótum Hringbrautar og Sæmundargötu á móts við Háskóla Íslands allt vestur að hringtorgi við Ánanaust,“ segir í tillögunni. 

Lagt var til að hámarkshraði yrði lækkaður á fleiri stöðum með það að markmiði að börn á leið í skóla þyrftu ekki að fara yfir götur með yfir 30 kílómetra hámarkshraða, til að mynda Bústaðavegur frá gatnamótum við Sæbraut vestur að Háaleitisbraut.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram tillögu um að úttekt yrði gerð á hraðakstri og kappakstri í borgarlandinu og tillögur gerðar að útbótum og frekari stefnumörkun borgarinnar um hraða umferðar með hliðsjón af slysum og slysablettum. Þá yrði reynsla af 30 kílómetra hverfum skoðuð í samræmi við það. 



Áhyggjufullir íbúar í Vesturbæ

Á miðvikudagsmorgun var ekið á þrettán ára stúlku við gatnamót Hringbrautar og Meistaravalla. Stúlkan hafði verið á leið í skóla þegar slysið varð. Stúlkan slapp með lítilsháttar meiðsli.

Vísir greindi frá því á dögunum að íbúar í Vesturbæ væru ósáttir við ökumenn sem keyrðu Hringbrautina. Þar væru margir hverjir yfir leyfilegum hraða og virtu ekki umferðarreglur. Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar ákvað í kjölfarið að veita fjármagni til Vesturbæjarskóla vegna gangbrautarvörslu við götuljósin, eins og gert er við sjö aðra skóla borgarinnar.

Blaðamaður Vísis náði mynd þar sem sjá má ökumann keyra yfir á rauðu ljósi þar sem ungur drengur á leið í skóla bíður eftir að komast yfir. 



Bíllinn brunar yfir á rauðu ljósi.Vísir/Kolbeinn Tumi

Tengdar fréttir

Lögreglan leitar vitna að slysinu á Hringbraut

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir því að ná tali af þeim sem urðu vitni því þegar þrettán ára stúlka á leið í skólann varð fyrir bíl á miðvikudagsmorgun á gatnamótum Hringbrautar og Meistaravalla í Vesturbæ Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×