Ekkert samkomulag er í sjónmáli sem gæti opnað þriðjung bandarískra alríkisstofnana sem hefur verið lokaður í þrjár vikur vegna kröfu Donalds Trump forseta um fjármagn fyrir landamæramúr. Aldrei fyrr hafa ríkisstofnanir verið lokaðar eins lengi og nú.
Hundruð þúsunda ríkisstarfsmanna hafa setið heima eða unnið launalaust frá því á miðnætti á föstudag fyrir jól. Trump forseti hafði þá hótað að synja frumvörpum staðfestingar sem repúblikanar og demókratar á þingi höfðu náð saman um og hefðu fjármagnað rekstur stofnananna tímabundið áfram. Ástæðan var sú að í þeim var ekki að finna rúmlega fimm milljarða dollara framlag til múrsins sem forsetinn vill reisa á landamærunum að Mexíkó.
Lokunin er nú á tuttugasta og öðrum degi. Fyrra metið var 21 dagur sem alríkisstofnanir lokuðu frá 1995 til 1996 í forsetatíð Bills Clinton, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Ýmsir ríkisstarfsmenn, þar á meðal fangaverðir, flugvallarstarfsmenn og alríkislögreglumenn, hafa nú misst af fyrstu launagreiðslu ársins. Í fyrri lokunum af þessu tagi hafa starfsmenn fengið laun greidd aftur í tímann. Óljóst er þó hvað verður um verktaka sem sinna ýmsum verkefnum fyrir alríkisstjórnina.
