Körfubolti

Harden í miklum ham en Boston Celtics í tómu tjóni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Harden hélt uppi Houston liðinu í nótt og það ekki í fyrsta sinn.
James Harden hélt uppi Houston liðinu í nótt og það ekki í fyrsta sinn. Getty/Bob Levey
James Harden skoraði 57 stig í nótt þegar lið hans Houston Rockets vann sigur á Memphis Grizzlies. Boston Celtics tapaði á sama tíma þriðja leiknum sínum í röð og Tony Parker fagnaði sigri í endurkomu sinni til San Antonio.

James Harden rauf 30 stiga múrinn í sautjánda leiknum í röð en hann gerði miklu meira en það því kappinn hefur ekki skorað meira á tímabilinu en einmitt í nótt. Með því að ná 30 stigum þá er hann líka fyrsti leikmaðurinn síðan 1964 sem nær að skora 30 stig í svo mörgum leikjum í röð. Sá sem náði því fyrir 55 árum var Wilt Chamberlain en Harden komst fram úr Kobe Bryant í nótt.

Harden var með 57 stig og var að fara yfir 40 stigin í fjórtánda sinn þar af í áttunda skiptið í síðustu ellefu leikjum. Hann var kominn með 36 stig í hálfleik. Harden lét sér reyndar nægja að gefa bara tvær stoðsendingar en var með 9 fráköst og hitti úr 15 af 17 vítaskotum sínum. Harden hafði mest áður skorað 54 stig í leik á tímabilinu en persónulega metið hans rétt slapp. Það eru 60 stig.











Harden hitti meðal annars úr 6 af 15 þriggja stiga skotum sínum í leiknum í nótt en kvöldið áður var hann aðeins 1 af 17. Þegar hann var spurður út í hvernig var að koma til baka eftir slíkt kvöld þá þóttist hann ekkert vita um fjölda misheppnaða þriggja stiga skota sinna kvöldið áður en sagði svo Orlando hafa verið heppið að hann hitti ekki úr fleirum í gær. Þá hefði hann skorað 60 stig.









D'Angelo Russell skoraði 18 af 34 stigum sínum í þriðja leikhlutanum þegar Brooklyn Nets vann 109-102 sigur á Boston Celtics. Þetta var þriðja tap Boston liðsins í röð en liðið lék án Kyrie Irving í þessum leik. Boston liðið er langt frá því að standast væntingar til síns í vetur en liðið er nú með fimmta besta árangurinn í austrinu, 25 sigra og 18 töp. Brooklyn liðið er núna bara þremur sigurleikjum á eftir þeim.





Kemba Walker skoraði 33 stig fyrir Charlotte Hornets þegar liðið vann 108-93 útisigur á San Antonio Spurs. Tony Parker var þarna að koma í fyrsta sinn aftur „heim“ til San Antonio þar sem gerði garðinn frægann. Parker var með 8 stig og 4 stoðsendingar og hjálpaði til að enda sjö leikja sigurgöngu Spurs liðsins á heimavelli. Hann fékk líka frábærar móttökur og tveggja mínútna heiðursmyndaband fyrir leikinn. LaMarcus Aldridge var með 28 stig og 10 fráköst fyrir San Antonio.











Anthony Davis var með 46 stig og 16 fráköst þegar New Orleans Pelicans vann 121-117 útisigur á Los Angeles Clippers.













Úrslitin í NBA-deildinni í nótt:

Los Angeles Clippers - New Orleans Pelicans 117-121

Sacramento Kings - Portland Trail Blazers    115-107    

Utah Jazz - Detroit Pistons    100-94    

San Antonio Spurs - Charlotte Hornets    93-108    

Houston Rockets - Memphis Grizzlies    112-94    

Brooklyn Nets - Boston Celtics    109-102    

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×