Skoðun

66 þúsund tonn af kolum

Auður Önnu Magnúsdóttir skrifar
Eitt af stóru málum okkar hjá Landvernd er baráttan gegn stóriðjuframkvæmdum sem auka mjög á losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum. Þetta á meðal annars við um kísilver PCC á Bakka. Samkvæmt starfsleyfi hefur kílsilverið heimild til að brenna árlega 66 þúsund tonnum af kolum og þannig auka losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum um 8 prósent á ári.

Fyrir jól féll úrskurður Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem Landvernd kærði starfsleyfi kísilversins. Landvernd telur að starfsleyfið stangist meðal annars á við skuldbindingar Íslands um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Því miður féllst Úrskurðarnefndin ekki á að ástæða væri til þess að afturkalla starfsleyfi verksmiðjunnar.

Landvernd kallar eftir því að stofnanir ríkisins og fyrirtæki í eigu þess leggist á eitt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í raun og hætti að nota loftslagsmál sem tylliástæðu fyrir uppfyllingu virkjana- og verksmiðjudrauma sinna.

Réttlæta eyðilegginguna

Sumum er tamt að halda því fram að framlag okkar Íslendinga til loftslagsmála sé virkjun vatnsfalla og jarðhita til framleiðslu á hráefnum sem fara á heimsmarkað. Með því réttlæta sumir fyrir sjálfum sér þá eyðileggingu sem við höfum stundað á gríðarfögrum náttúruminjum Íslands sem eru oft einstakar í heiminum. Þá er því haldið fram að með því dragi úr framleiðslu hráefnanna með jarðefnaeldsneyti en ekki hefur verið sýnt fram á neitt slíkt samhengi; eingöngu er ljóst að framboð af hráefninu er aukið.

Landvernd er í þessu tilviki ekki sumir. Við viljum leggja okkar af mörkum til þess að benda á þau mörgu tækifæri sem við höfum til þess að draga úr okkar eigin losun gróðurhúsalofttegunda jafnframt því sem við verndum þann mikla auð sem býr í náttúrunni okkar og vera þannig góð fyrirmynd fyrir heiminn sem þjóð sem er kolefnisneikvæð. Með því yrðum við þjóð sem bindur meira af gróðurhúsalofttegundum en hún losar.




Skoðun

Sjá meira


×