Skuldabréfaeigendur WOW Air féllust á breytingar á skilmálum bréfa sinna. Atkvæðagreiðslu um breytingarnar lauk í gær.
Eins og greint hefur verið frá, nú síðast í bréfi Skúla Mogensen til skuldabréfaeigandanna, voru umræddar breytingar forsendan fyrir því að fjárfesting Indigo Partners í félaginu myndi ganga eftir. Bandaríski fjárfestingasjóðurinn mun eignast hið minnsta 49 prósent hlut í flugfélaginu og gæti fjárfestingin numið rúmlega 9 milljörðum króna.
Ef af fjárfestingunni ætti að verða þyrftu skuldabréfaeigendur að samþykkja skilmálabreytingar á þeim bréfum sem þeir hafa keypt, auk þess sem þeir yrðu að falla frá gjaldfellingarákvæðum. Breytingarnar fela meðal annars í sér að lengt verður úr skuldabréfunum úr þremur árum í fimm. WOW air hafi heimild til að lengja í þeim um ár til viðbótar, gegn gjaldi.
Sjá einnig: Indigo eignast hið minnsta 49 prósent í WOW
Þá þurftu skuldabréfaeigendur einnig að gefa eftir tryggingar í formi hlutabréfa í WOW Air, sem og kröfu þess efnis að skuldabréfin verði skráð í kauphöllina í Stokkhólmi. Fyrri skilmálar heimiluðu þar að auki ekki svokallaðar stjórnendagreiðslur til Indigo Partners, sem gæti numið um 1,5 milljónum bandaríkjadala á ári. WOW Air fór einnig fram á að birta uppgjör sín á hálfs árs fresti, í stað ársfjórðungslega.
Fram kemur á tilkynningasíðu WOW Air að í atkvæðagreiðslunni, sem lauk í gær, hafi borist nógu mörg atkvæði og að meirihluti skuldabréfaeigendanna hafi fallist á breytingarnar. Ekki er þó gefið upp um hlutfall þeirra.
Skuldabréfaeigendur WOW féllust á skilmálabreytingar

Tengdar fréttir

Indigo kemur með allt að 9,3 milljarða inn í WOW Air
Indigo Partners LLC og WOW Air hafa komist að samkomulagi um það að fyrrnefnda félagið muni fjárfesta í flugfélaginu.

Indigo eignast hið minnsta 49 prósent í WOW
Gangi kaup Indigo Partners í WOW Air eftir mun bandaríska fjárfestingafélagið eignast 49 prósent hlut í flugfélaginu.