Tveir forsetar Þórgnýr Einar Albertsson skrifar 19. janúar 2019 11:00 Nicolás Maduro, forseti Venesúela. Getty Starfandi forseti hefur tekið við í Venesúela eftir að kjörtímabili Nicolás Maduro lauk. Samtök Ameríkuríkja viðurkenna hinn nýja forseta en það gerir Maduro ekki og heldur enn í völdin. Sérkennileg staða er komin upp í sósíalistaríkinu Venesúela. Staðan þar hefur vissulega ekki verið stórkostleg að undanförnu. Nú er hins vegar hnakkrifist um forsetastól landsins. Nýr, starfandi forseti er tekinn við af Nicolas Maduro, allavega samkvæmt venesúelska þinginu. Maduro kveðst hins vegar enn vera forseti.Efnahagshamfarir Til þess að útskýra þá stöðu sem komin er upp þarf að leita aftur í tímann. Venesúela er mikið olíuríki. Þegar sósíalistinn Hugo Chávez komst til valda um aldamótin jókst mikilvægi olíunnar fyrir hið nýja, sósíalíska hagkerfi enn meira. Þetta svarta gull stendur nú undir 95 prósentum af öllum útflutningstekjum ríkisins. Samkvæmt skýringu BBC kom landið því afar illa út úr því er olíuverð hrundi árið 2014. Gjaldeyrisforði ríkisins tæmdist einfaldlega og erfitt var að flytja inn nauðsynjar. Þar af leiddi hækkað vöruverð og þar með verðbólgu. Peningar íbúa ríkisins urðu verðminni og verðminni og ríkisstjórnin hefur til að mynda brugðist við með því að prenta meiri peninga og hækka lágmarkslaun. Þessar aðgerðir voru olía á eld verðbólgunnar. Í þokkabót gengur illa að borga af lánum og enn verr að fá ný lán. Og þótt Venesúela hafi kynnt nýjan gjaldmiðil til sögunnar í ágúst síðastliðnum hafði það einfaldlega engin jákvæð áhrif. Verðbólga á síðasta ári, fram í nóvember, mældist 1.300.000 prósent. Þetta þýðir að verð hefur tvöfaldast á um nítján daga fresti. Spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir næsta ár stendur í tíu milljónum prósenta. Þótt Maduro kenni Bandaríkjunum og Kólumbíu um ástandið, segi ríkin stunda spellvirki og efnahagsleg hryðjuverk, hafa mótmæli gegn ríkisstjórninni orðið æ tíðari í Venesúela. Óánægja íbúa er sem sagt að aukast.Juan Guaidó, forseti Venesúela.GettyKosið á ný Þann 20. maí í fyrra gengu íbúar í Venesúela að kjörborðinu til þess að kjósa sér forseta. Ætla má að í ríki með milljón prósenta verðbólgu væri forsetinn ekki vinsæll. Skoðanakannanir í aðdraganda kosninganna, meðal annars frá Varianzas, Hercon og Datanalisis sýndu stjórnarandstæðinginn Henri Falcón með meira fylgi en Maduro. Framboð Falcóns var reyndar ekki óumdeilt. Bandalag stjórnarandstöðuflokka hafði ákveðið að sniðganga kosningarnar á þeim grundvelli að þær stæðust ekki grundvallarkröfur um sanngjarnar, frjálsar kosningar. Landskjörstjórn hafði verið sökuð um hlutdrægni enda var tveimur sigurstranglegustu frambjóðendum andstöðunnar meinað að bjóða sig fram. Könnun Meganálisis í apríl 2018 sýndi að 65 prósent aðspurðra teldu Falcón í raun samverkamann Maduro. Hann væri einungis í framboði til þess að láta kosningarnar líta út fyrir að vera raunverulegar. Falcón þvertók fyrir allt slíkt á sínum tíma. Sagði pólitíska sniðgöngu einfaldlega ekki virka.Umdeildur sigur Þegar talið var upp úr kjörkössunum kom í ljós að Maduro fékk 67,8 prósent atkvæða. Falcón ekki nema 20,9 prósent. Kjörsókn undir fimmtíu prósentum. Maduro lýsti yfir sigri. En sá sigur var, og er, umdeildur. Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusambandið, Bandaríkin, Ástralía, Samtök Ameríkuríkja og Lima-hópurinn [samtök tólf ríkja sem leita að friðsamlegri lausn á krísunni í Venesúela] lýstu nær samstundis yfir alvarlegum efasemdum um kosningarnar og neituðu að viðurkenna niðurstöðurnar. Það gerðu fleiri ríki sömuleiðis en ríki á borð við Kúbu, Íran, Norður-Kóreu, Sýrland og Kína sögðu Maduro réttkjörinn forseta.Áskorandinn Venesúelska þingið er í höndum stjórnarandstöðunnar og hefur verið frá árinu 2015. Það þóknast Maduro ekki. Hæstiréttur Venesúela, hliðhollur Maduro, úrskurðaði í mars 2017 að þingið skyldi ekki hafa nein völd lengur. Í framhaldinu ákvað ríkisstjórnin að mynda nýtt þing, stjórnlagaþing, og í því sitja nú eingöngu menn úr Sósíalistaflokknum. Úrskurður hæstaréttar orsakaði mikil og mannskæð mótmæli og ákvað hæstiréttur því að draga úrskurð sinn til baka. Þingið ákvað að skipa nýjan hæstarétt sem situr nú í útlegð í Panama en ríkisstjórn Maduro viðurkennir útlæga dómstólinn ekki. Gamla þingið starfar hins vegar enn þótt stjórnlagaþingið hafi verið myndað og Maduro hlusti einungis á hið nýja þing. Gamla þingið kaus sér nýjan þingforseta í desember síðastliðnum. Sá heitir Juan Guaidó og er maðurinn sem nú tekst á við Maduro um forsetastólinn. Guaidó var tiltölulega óþekktur á heimsvísu áður en hann tók við sem forseti þingsins og hefur verið viðriðinn stjórnmál í tiltölulega stuttan tíma. Hann tók virkan þátt í mannskæðu mótmælunum árið 2017 og uppskar ör á hálsi eftir að öryggissveitir skutu hann með gúmmíkúlum. Þessi 35 ára gamli jafnaðarmaður lofaði því er hann sór embættiseið að hann myndi veita Maduro sterka andstöðu. Ættingjum pólitískra fanga var boðið á innsetningarathöfnina sem fór fram þann 5. janúar.Juan Guaidó, forseti Venesúela.Nýr forseti Fimm dögum síðar, þann 10., rann kjörtímabil Maduro út. Þótt formleg innsetningarathöfn fyrir Maduro hafi farið fram viðurkennir þingið ekki lögmæti kosninga síðasta árs og lítur því svo á að það sé ekki búið að kjósa næsta forseta ríkisins. Guaidó hóf því myndun eins konar starfsstjórnar þangað til nýr forseti hefur verið kjörinn. Í ræðu á þingi sagði hann að Venesúela væri í raun orðið einræðisríki og lýsti Guaidó því yfir neyðarástandi. Maduro-stjórnin brást illa vil þessu. Sjálfur líkti Maduro stjórnarandstöðunni við skólastráka og sagði Guaidó einfaldlega óþroskaðan. Iris Varela fangelsismálaráðherra sagðist svo vera búin að velja sérstaklega fangaklefa fyrir uppreisnarsegginn Guaidó. Hún biði nú eftir því að hann tilkynnti um ríkisstjórn svo hún vissi hverjir gætu fylgt honum í steininn. Beint í kjölfar ræðunnar birtist hins vegar yfirlýsing á vef þingsins þar sem sagði að Guaidó væri tekinn við sem starfandi forseti Venesúela á grundvelli greina 233, 333 og 350 í venesúelsku stjórnarskránni. Sama dag barst svo bréf frá hinum útlæga hæstarétti Venesúela, það er að segja þeim dómurum sem sitja í Panama, þar sem Guaidó var beðinn um að taka við sem starfandi forseti.Stuðningur við Guaidó Samtök Ameríkuríkja lýstu yfir stuðningi við Guaidó. „Við fögnum því að Juan Guaidó sé orðinn starfandi forseta Venesúela í samræmi við 233. grein stjórnarskrárinnar. Við, alþjóðasamfélagið og venesúelskir borgarar styðjum þig,“ sagði í tísti frá samtökunum. Fleiri fylgdu í kjölfarið. Brasilía og Kólumbía, kaþólska kirkjan í landinu og Lima-hópurinn. Þann 15. janúar kvaðst Donald Trump Bandaríkjaforseti vera að íhuga hvort hann ætti að viðurkenna Guaidó sem nýjan forseta Venesúela. Hann þurfti ekki að hugsa sig lengi um og gerði það degi seinna. Guaidó var handtekinn á sunnudaginn fyrir viku eftir að lögregla stöðvaði för hans norður af höfuðborginni Caracas. Ekki liggur fyrir hvers vegna en honum var sleppt um klukkustund síðar. Samkvæmt Jorge Rodríguez, upplýsingamálaráðherra í Maduro-stjórninni, handtóku lögreglumenn hinn starfandi forseta í leyfisleysi. Guaidó er ekki á sama máli. Sagði við AP-fréttaveituna að handtakan hafi verið að beiðni háttsettra.Framhaldið Venesúelska stjórnarandstaðan stendur að baki Guaidó og vonast til þess að hinn ungi þingmaður, þingforseti og starfandi forseti nái að hrifsa völdin af Maduro svo hann geti næst boðað til nýrra kosninga. Á þessari fyrstu viku hans sem starfandi forseti hefur hann ekki náð að taka við völdum nema að nafninu til. Þingið ætlar að freista þess að fá herinn til liðs við sig í átökunum um forsetastólinn. Það samþykkti ályktun um að allir þeir hermenn sem „endurreisa lýðræði Venesúela“ fái algjöra friðhelgi. „Þau eru að leggja grunninn að því að fá bæði herinn og lögreglu til liðs við sig. Það gefur hermönnum ástæðu til þess að skipta um lið í staðinn fyrir að halda áfram að styðja Maduro,“ sagði Diego Moya-Ocampos, venesúelskur stjórnmálaskýrandi, við Washington Post í vikunni. Moya-Ocampus sagði svo við AFP að herinn væri í rauninni lykillinn að þessu öllu saman. Vladimir Padrino López varnarmálaráðherra sór Maduro hollustueið á þriðjudaginn. „Venesúelskir hermenn eru reiðubúnir til þess að verja stjórnarskrána, stofnanir ríkisins og þig, forseta Venesúela,“ sagði ráðherrann. Pattstaða er enn í deilunni um venesúelska forsetastólinn. Hins vegar hefur Guaidó boðað til mótmæla um land allt þann 23. janúar. Þá verður 61 ár liðið frá því Marcos Pérez Jiménez herforingja var steypt af forsetastóli. Birtist í Fréttablaðinu Fréttaskýringar Venesúela Mest lesið Styrktartónleikar á Hvolsvelli fyrir mikið slasaðan bónda Innlent „Hrikalegir“ biðlistar hjá golfklúbbum í höfuðborginni Innlent Kostnaður við nýja sánuklefa í Vesturbæ um 130 milljónir Innlent Kristrún á forsíðu Guardian: „Velferðarríki með ríkissjóð réttu megin við núllið“ Innlent Íbúar í Garði ósáttir við uppbyggingu á þekktu flóðasvæði Innlent „Mogginn er ekki flokksblað Framsóknarflokksins“ Innlent Stór skjálfti reið yfir í Ljósufjöllum Innlent Íbúar upplifa sig svikna af Icelandair Innlent Fimm handteknir í sérsveitaraðgerð á Akureyri Innlent „Ákæruvaldið þarf að útskýra þetta“ Innlent Fleiri fréttir Tugir slasaðir eftir árekstur tveggja sporvagna Alls sextán látin í eldunum Heilbrigðisyfirvöld hafa lýst yfir neyðarástandi Tveir látnir eftir að rúta hafnaði á hliðinni Weidel og Scholz kanslaraefni Fyrrverandi barnastjarna og feðgar meðal látinna Tveir norður-kóreskir hermenn sagðir í haldi Úkraínuhers Anita Bryant er látin Byssumaður í Pizzagate-málinu skotinn til bana Rýnt í stöðuna í Úkraínu: „Heimurinn er að breytast, hvað sem er getur gerst“ „Faðir minn ætti að deyja í fangelsi“ „Við viljum ekki vera Bandaríkjamenn“ Útgöngubann í borginni í nótt Vörpuðu fimmtíu sprengjum á þrjú skotmörk í Jemen Trump ekki dæmdur í fangelsi Sagðir hafa greitt heimilislausum til að þykjast vera stuðningsmenn Trumps Staðfesta að 2024 var heitasta árið í mælingasögunni Sóttu sér meira en milljón ára gamlan ís á Suðurskautslandinu Óvænt skilaboð leiddu til ferðar með syni Trumps Egede biðlar til Grænlendinga um yfirvegun og samstöðu Óttast að stóriðja spilli besta stjörnuskoðunarstað jarðar Stóru eldarnir enn hömlulausir Hæstiréttur stöðvar ekki dómsuppsögu í máli Trumps Trúir ekki að Trump muni beita hervaldi Íslendingar þurfi að huga að forvörnum með auknum gróðri og skógi Fimm forsetar viðstaddir útför Carters Myndasyrpa: Að minnsta kosti tvö þúsund hús brunnin í Los Angeles Spjallaði við hæstaréttardómara rétt fyrir áfrýjun Fyrrverandi fjármálaráðherra Svíþjóðar látinn Skotbardagi við forsetahöll Tjad Sjá meira
Starfandi forseti hefur tekið við í Venesúela eftir að kjörtímabili Nicolás Maduro lauk. Samtök Ameríkuríkja viðurkenna hinn nýja forseta en það gerir Maduro ekki og heldur enn í völdin. Sérkennileg staða er komin upp í sósíalistaríkinu Venesúela. Staðan þar hefur vissulega ekki verið stórkostleg að undanförnu. Nú er hins vegar hnakkrifist um forsetastól landsins. Nýr, starfandi forseti er tekinn við af Nicolas Maduro, allavega samkvæmt venesúelska þinginu. Maduro kveðst hins vegar enn vera forseti.Efnahagshamfarir Til þess að útskýra þá stöðu sem komin er upp þarf að leita aftur í tímann. Venesúela er mikið olíuríki. Þegar sósíalistinn Hugo Chávez komst til valda um aldamótin jókst mikilvægi olíunnar fyrir hið nýja, sósíalíska hagkerfi enn meira. Þetta svarta gull stendur nú undir 95 prósentum af öllum útflutningstekjum ríkisins. Samkvæmt skýringu BBC kom landið því afar illa út úr því er olíuverð hrundi árið 2014. Gjaldeyrisforði ríkisins tæmdist einfaldlega og erfitt var að flytja inn nauðsynjar. Þar af leiddi hækkað vöruverð og þar með verðbólgu. Peningar íbúa ríkisins urðu verðminni og verðminni og ríkisstjórnin hefur til að mynda brugðist við með því að prenta meiri peninga og hækka lágmarkslaun. Þessar aðgerðir voru olía á eld verðbólgunnar. Í þokkabót gengur illa að borga af lánum og enn verr að fá ný lán. Og þótt Venesúela hafi kynnt nýjan gjaldmiðil til sögunnar í ágúst síðastliðnum hafði það einfaldlega engin jákvæð áhrif. Verðbólga á síðasta ári, fram í nóvember, mældist 1.300.000 prósent. Þetta þýðir að verð hefur tvöfaldast á um nítján daga fresti. Spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir næsta ár stendur í tíu milljónum prósenta. Þótt Maduro kenni Bandaríkjunum og Kólumbíu um ástandið, segi ríkin stunda spellvirki og efnahagsleg hryðjuverk, hafa mótmæli gegn ríkisstjórninni orðið æ tíðari í Venesúela. Óánægja íbúa er sem sagt að aukast.Juan Guaidó, forseti Venesúela.GettyKosið á ný Þann 20. maí í fyrra gengu íbúar í Venesúela að kjörborðinu til þess að kjósa sér forseta. Ætla má að í ríki með milljón prósenta verðbólgu væri forsetinn ekki vinsæll. Skoðanakannanir í aðdraganda kosninganna, meðal annars frá Varianzas, Hercon og Datanalisis sýndu stjórnarandstæðinginn Henri Falcón með meira fylgi en Maduro. Framboð Falcóns var reyndar ekki óumdeilt. Bandalag stjórnarandstöðuflokka hafði ákveðið að sniðganga kosningarnar á þeim grundvelli að þær stæðust ekki grundvallarkröfur um sanngjarnar, frjálsar kosningar. Landskjörstjórn hafði verið sökuð um hlutdrægni enda var tveimur sigurstranglegustu frambjóðendum andstöðunnar meinað að bjóða sig fram. Könnun Meganálisis í apríl 2018 sýndi að 65 prósent aðspurðra teldu Falcón í raun samverkamann Maduro. Hann væri einungis í framboði til þess að láta kosningarnar líta út fyrir að vera raunverulegar. Falcón þvertók fyrir allt slíkt á sínum tíma. Sagði pólitíska sniðgöngu einfaldlega ekki virka.Umdeildur sigur Þegar talið var upp úr kjörkössunum kom í ljós að Maduro fékk 67,8 prósent atkvæða. Falcón ekki nema 20,9 prósent. Kjörsókn undir fimmtíu prósentum. Maduro lýsti yfir sigri. En sá sigur var, og er, umdeildur. Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusambandið, Bandaríkin, Ástralía, Samtök Ameríkuríkja og Lima-hópurinn [samtök tólf ríkja sem leita að friðsamlegri lausn á krísunni í Venesúela] lýstu nær samstundis yfir alvarlegum efasemdum um kosningarnar og neituðu að viðurkenna niðurstöðurnar. Það gerðu fleiri ríki sömuleiðis en ríki á borð við Kúbu, Íran, Norður-Kóreu, Sýrland og Kína sögðu Maduro réttkjörinn forseta.Áskorandinn Venesúelska þingið er í höndum stjórnarandstöðunnar og hefur verið frá árinu 2015. Það þóknast Maduro ekki. Hæstiréttur Venesúela, hliðhollur Maduro, úrskurðaði í mars 2017 að þingið skyldi ekki hafa nein völd lengur. Í framhaldinu ákvað ríkisstjórnin að mynda nýtt þing, stjórnlagaþing, og í því sitja nú eingöngu menn úr Sósíalistaflokknum. Úrskurður hæstaréttar orsakaði mikil og mannskæð mótmæli og ákvað hæstiréttur því að draga úrskurð sinn til baka. Þingið ákvað að skipa nýjan hæstarétt sem situr nú í útlegð í Panama en ríkisstjórn Maduro viðurkennir útlæga dómstólinn ekki. Gamla þingið starfar hins vegar enn þótt stjórnlagaþingið hafi verið myndað og Maduro hlusti einungis á hið nýja þing. Gamla þingið kaus sér nýjan þingforseta í desember síðastliðnum. Sá heitir Juan Guaidó og er maðurinn sem nú tekst á við Maduro um forsetastólinn. Guaidó var tiltölulega óþekktur á heimsvísu áður en hann tók við sem forseti þingsins og hefur verið viðriðinn stjórnmál í tiltölulega stuttan tíma. Hann tók virkan þátt í mannskæðu mótmælunum árið 2017 og uppskar ör á hálsi eftir að öryggissveitir skutu hann með gúmmíkúlum. Þessi 35 ára gamli jafnaðarmaður lofaði því er hann sór embættiseið að hann myndi veita Maduro sterka andstöðu. Ættingjum pólitískra fanga var boðið á innsetningarathöfnina sem fór fram þann 5. janúar.Juan Guaidó, forseti Venesúela.Nýr forseti Fimm dögum síðar, þann 10., rann kjörtímabil Maduro út. Þótt formleg innsetningarathöfn fyrir Maduro hafi farið fram viðurkennir þingið ekki lögmæti kosninga síðasta árs og lítur því svo á að það sé ekki búið að kjósa næsta forseta ríkisins. Guaidó hóf því myndun eins konar starfsstjórnar þangað til nýr forseti hefur verið kjörinn. Í ræðu á þingi sagði hann að Venesúela væri í raun orðið einræðisríki og lýsti Guaidó því yfir neyðarástandi. Maduro-stjórnin brást illa vil þessu. Sjálfur líkti Maduro stjórnarandstöðunni við skólastráka og sagði Guaidó einfaldlega óþroskaðan. Iris Varela fangelsismálaráðherra sagðist svo vera búin að velja sérstaklega fangaklefa fyrir uppreisnarsegginn Guaidó. Hún biði nú eftir því að hann tilkynnti um ríkisstjórn svo hún vissi hverjir gætu fylgt honum í steininn. Beint í kjölfar ræðunnar birtist hins vegar yfirlýsing á vef þingsins þar sem sagði að Guaidó væri tekinn við sem starfandi forseti Venesúela á grundvelli greina 233, 333 og 350 í venesúelsku stjórnarskránni. Sama dag barst svo bréf frá hinum útlæga hæstarétti Venesúela, það er að segja þeim dómurum sem sitja í Panama, þar sem Guaidó var beðinn um að taka við sem starfandi forseti.Stuðningur við Guaidó Samtök Ameríkuríkja lýstu yfir stuðningi við Guaidó. „Við fögnum því að Juan Guaidó sé orðinn starfandi forseta Venesúela í samræmi við 233. grein stjórnarskrárinnar. Við, alþjóðasamfélagið og venesúelskir borgarar styðjum þig,“ sagði í tísti frá samtökunum. Fleiri fylgdu í kjölfarið. Brasilía og Kólumbía, kaþólska kirkjan í landinu og Lima-hópurinn. Þann 15. janúar kvaðst Donald Trump Bandaríkjaforseti vera að íhuga hvort hann ætti að viðurkenna Guaidó sem nýjan forseta Venesúela. Hann þurfti ekki að hugsa sig lengi um og gerði það degi seinna. Guaidó var handtekinn á sunnudaginn fyrir viku eftir að lögregla stöðvaði för hans norður af höfuðborginni Caracas. Ekki liggur fyrir hvers vegna en honum var sleppt um klukkustund síðar. Samkvæmt Jorge Rodríguez, upplýsingamálaráðherra í Maduro-stjórninni, handtóku lögreglumenn hinn starfandi forseta í leyfisleysi. Guaidó er ekki á sama máli. Sagði við AP-fréttaveituna að handtakan hafi verið að beiðni háttsettra.Framhaldið Venesúelska stjórnarandstaðan stendur að baki Guaidó og vonast til þess að hinn ungi þingmaður, þingforseti og starfandi forseti nái að hrifsa völdin af Maduro svo hann geti næst boðað til nýrra kosninga. Á þessari fyrstu viku hans sem starfandi forseti hefur hann ekki náð að taka við völdum nema að nafninu til. Þingið ætlar að freista þess að fá herinn til liðs við sig í átökunum um forsetastólinn. Það samþykkti ályktun um að allir þeir hermenn sem „endurreisa lýðræði Venesúela“ fái algjöra friðhelgi. „Þau eru að leggja grunninn að því að fá bæði herinn og lögreglu til liðs við sig. Það gefur hermönnum ástæðu til þess að skipta um lið í staðinn fyrir að halda áfram að styðja Maduro,“ sagði Diego Moya-Ocampos, venesúelskur stjórnmálaskýrandi, við Washington Post í vikunni. Moya-Ocampus sagði svo við AFP að herinn væri í rauninni lykillinn að þessu öllu saman. Vladimir Padrino López varnarmálaráðherra sór Maduro hollustueið á þriðjudaginn. „Venesúelskir hermenn eru reiðubúnir til þess að verja stjórnarskrána, stofnanir ríkisins og þig, forseta Venesúela,“ sagði ráðherrann. Pattstaða er enn í deilunni um venesúelska forsetastólinn. Hins vegar hefur Guaidó boðað til mótmæla um land allt þann 23. janúar. Þá verður 61 ár liðið frá því Marcos Pérez Jiménez herforingja var steypt af forsetastóli.
Birtist í Fréttablaðinu Fréttaskýringar Venesúela Mest lesið Styrktartónleikar á Hvolsvelli fyrir mikið slasaðan bónda Innlent „Hrikalegir“ biðlistar hjá golfklúbbum í höfuðborginni Innlent Kostnaður við nýja sánuklefa í Vesturbæ um 130 milljónir Innlent Kristrún á forsíðu Guardian: „Velferðarríki með ríkissjóð réttu megin við núllið“ Innlent Íbúar í Garði ósáttir við uppbyggingu á þekktu flóðasvæði Innlent „Mogginn er ekki flokksblað Framsóknarflokksins“ Innlent Stór skjálfti reið yfir í Ljósufjöllum Innlent Íbúar upplifa sig svikna af Icelandair Innlent Fimm handteknir í sérsveitaraðgerð á Akureyri Innlent „Ákæruvaldið þarf að útskýra þetta“ Innlent Fleiri fréttir Tugir slasaðir eftir árekstur tveggja sporvagna Alls sextán látin í eldunum Heilbrigðisyfirvöld hafa lýst yfir neyðarástandi Tveir látnir eftir að rúta hafnaði á hliðinni Weidel og Scholz kanslaraefni Fyrrverandi barnastjarna og feðgar meðal látinna Tveir norður-kóreskir hermenn sagðir í haldi Úkraínuhers Anita Bryant er látin Byssumaður í Pizzagate-málinu skotinn til bana Rýnt í stöðuna í Úkraínu: „Heimurinn er að breytast, hvað sem er getur gerst“ „Faðir minn ætti að deyja í fangelsi“ „Við viljum ekki vera Bandaríkjamenn“ Útgöngubann í borginni í nótt Vörpuðu fimmtíu sprengjum á þrjú skotmörk í Jemen Trump ekki dæmdur í fangelsi Sagðir hafa greitt heimilislausum til að þykjast vera stuðningsmenn Trumps Staðfesta að 2024 var heitasta árið í mælingasögunni Sóttu sér meira en milljón ára gamlan ís á Suðurskautslandinu Óvænt skilaboð leiddu til ferðar með syni Trumps Egede biðlar til Grænlendinga um yfirvegun og samstöðu Óttast að stóriðja spilli besta stjörnuskoðunarstað jarðar Stóru eldarnir enn hömlulausir Hæstiréttur stöðvar ekki dómsuppsögu í máli Trumps Trúir ekki að Trump muni beita hervaldi Íslendingar þurfi að huga að forvörnum með auknum gróðri og skógi Fimm forsetar viðstaddir útför Carters Myndasyrpa: Að minnsta kosti tvö þúsund hús brunnin í Los Angeles Spjallaði við hæstaréttardómara rétt fyrir áfrýjun Fyrrverandi fjármálaráðherra Svíþjóðar látinn Skotbardagi við forsetahöll Tjad Sjá meira