Öryrkjabandalag Íslands segir að Tryggingastofnun fari ekki að lögum sem gengu í gildi um áramótin. Þetta kemur fram á vefsíðu bandalagsins. Afleiðingarnar séu neikvæðar fyrir marga lífeyrisþega.
Á vefnum segir að lögum samkvæmt eigi uppbætur vegna reksturs bifreiðar og uppbætur á lífeyri að vera undanþegnar skattskyldu frá og með 1. janúar á þessu ári. „Ljóst er að þetta hefur áhrif á fjölda manns og skerðir afkomu þeirra í þessum fyrsta mánuði ársins.“
Vísað er í svar Tryggingastofnunar við fyrirspurn Öryrkjabandalagsins. Þar hafi stofnunin haldið því fram að hún hafi ekki vitað af skattabreytingunni fyrr en rétt fyrir jól. „Við þurfum að gera breytingar á greiðslukerfi okkar. Það náðist ekki að breyta greiðslum fyrir 1. janúar,“ er haft eftir Tryggingastofnun.
Stofnunin muni ekki framfylgja lögunum um skattleysi þessara uppbóta fyrr en í febrúar. „Þetta er vægast sagt undarleg – satt að segja ótrúleg – stjórnsýsla.“
Fullyrt er að Tryggingastofnun hafi vitað af lagabreytingunni, sem samþykkt var á Alþingi 7. desember, með góðum fyrirvara. Stofnunin hafi verið á meðal þeirra sem hafi verið boðið að veita umsögn á meðan málið var til umfjöllunar á Alþingi. „Það er ekki eins og TR hafi skort tíma til að framkvæma lögin og það stenst enga skoðun að þetta hafi komið Tryggingastofnun á óvart.“

