Bandaríkjamaðurinn Paul Whelan hefur verið ákærður fyrir njósnir í Rússlandi. Hann var handtekinn þann 28. desember en hann er fyrrverandi landgönguliði. Fjölskylda hans segir Whelan hafa verið í Rússlandi vegna brúðkaups og hann hafi reglulega ferðast til Rússlands. Yfirvöld Rússlands hafa ekki opinberað um hvað hann er sakaður en segja hann hafa verið handtekinn við njósnir.
Whelan hefur ekki verið í samskiptum við fjölskyldu sína en Jon Huntsman, sendiherra Bandaríkjanna í Rússlandi hitti hann í gærkvöldi.
Sjá einnig: Fjölskylda meints njósnara segir hann saklausan
Rússneskur fjölmiðill, Rosbalt fréttaveitan, segir Whelan hafa verið handtekinn með USB-drif í fórum sínum og á því drifi hafi fundist leynilegur nafnalisti. Guardian vitnar í Rosbalt og segir rússneskan borgara hafa heimsótt Whelan á hótelherbergi hans og látið hann fá umrætt drif. Hann hafi verið handtekinn í kjölfarið.
Þetta eru ekki staðfestar fregnir og Rosbalt segir ekki hvað hafi orðið af Rússanum sem afhenti Whelan drifið.
Lögmaður Whelan segir hann við góða heilsu og í góðu skapi. Í samtali við New York Times, segir lögmaðurinn að gott skap Whelan hafi komið sér á óvart. Hann segir þar að auki að hann gruni að Whelan hafi verið undir eftirliti í einhvern tíma..

