Körfubolti

Giannis nálgast Shaq í flestum troðsluveislum á einu tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giannis Antetokounmpo hefur verið magnaður á þessu tímabili.
Giannis Antetokounmpo hefur verið magnaður á þessu tímabili. Vísir/Getty
Giannis Antetokounmpo hefur verið magnaður með liði Milwaukee Bucks og aðalástæðan fyrir því að liðið er með næstbesta árangurinn í Austurdeildinni.

Giannis Antetokounmpo er með frábærar tölur en hann nálgast líka magnað met Shaquille O´Neal frá sínum bestu árum með Los Angeles Lakers.

Giannis hefur nefnilega náð fjórum leikjum á þessu tímabili þar sem hann hefur troðið boltanum átta sinnum eða oftar í körfuna í einum leik.

Metið í NBA-deildinni á Shaquille O´Neal frá tímabilinu 2002-03 en Shaq náði þá fimm átta troðslu leikjum með liði Los Angeles Lakers.



Giannis Antetokounmpo hefur alls troðið boltanum 127 sinnum í körfuna í 28 leikjum en hann var með 161 troðslu í 75 leikjum allt tímabilið í fyrra. Persónulega metið hans eru 194 troðslur í 80 leikjum tímabilið 2016-17 en það met slær hann nær örugglega í vetur.  Í vetur er Giannis að bjóða upp á 4,5 troðslur að meðaltali í leik.

Giannis er með 26,7 stig, 12,9 fráköst og 6,1 stoðsendingu að meðalali í leik í vetur. Hann er að hækka sig í fráköstum (10,0 fráköst í leik í fyrra) og stoðsendingum (4,8 stoðsendingar í leik í fyrra) en að skora nánast jafnmikið og í fyrra (26,9 stig í leik í fyrra).  

Shaquille O´Neal tróð boltanum mest 255 sinnum í körfuna á einu tímabili en það var í 73 leikjum veturinn 2004-05 þegar hann lék með Miami Heat liðinu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×