Þau Ásta Björk Ólafsdóttir og Sigurður Lárusson ætluðu fyrst að bjóða þeim sem verða einir á aðfangadagskvöld í mat heim til sín en þegar þau sáu að hópurinn yrði svona stór ákváðu þau að fá salinn lánaðan hjá Hvítasunnukirkjunni svo það væri nóg pláss fyrir alla. Þau eru að bjóða í fyrsta skipti í svona mat og voru í dag að undirbúa matarboðið og salinn fyrir aðfangadagskvöld.
„Við vissum af einstaklingi sem við vorum að spá í hvar hún yrði um jólin. Svo þegar við fórum að hugsa okkur betur um þá vissum við af fjórum einstaklingum. Okkur datt þetta í hug fyrst að fólk er að hittast og borða skötu saman, af hverju ekki líka á aðfangadagskvöld. Hugmyndin er að hittast, borða saman og eiga notalega stund,“ segir Ásta Björk.
En hvað verður í matinn?
„Við byrjum á humarsúpu og svo í aðalrétt verður bbayonne-skinka og lambalæri, ásamt öllu meðlæti og svo endum við á geggjaðri ostatertu í desert,“ segir Sigurður.
Börn Ástu og Sigurðar verða að sjálfsögðu í veislunni og allir gestir verða leystir út með jólagjöf. Þá verður hægt að hlusta á ljúfa tónlist áður en maturinn hefst í sal Hvítasunnukirkjunnar.
Að neðan má sjá fréttina en hún hefst þegar 3:16 eru liðnar af innslaginu.