Flugvélar WOW air millilenda þessa dagana í Edmonton í Kanada á flugleiðinni frá Keflavík til Los Angeles og til baka. Viðskiptablaðið greinir frá þessu og vísar í ferðaupplýsingar á vef flugfélagsins. Þar má sjá að áætlað er 20-30 mínútna stopp í kanadísku borginni til að fylla á eldsneyti.
WOW air skilaði á dögunum fjórum flugvélum úr flugflotanum sem er allur á leigu. Þar af voru tvær langdrægar A330 Airbus vélar sem notaðar hafa verið í flug til vesturstrandar Bandaríkjanna. Þar með er bara ein langdræg A330 Airbus vél eftir hjá WOW sem flugfélagið ætlar að nýta í áætlunarflug til Indlands sem hefst á morgun.
VB vísar í fjárfestakynningu Pareto vegna hlutabréfaútboðs WOW air frá því í haust þar sem fram kemur að hámarksdrægni fyrrnefndra Airbus véla sé um 11.100 kílómetrar á meðan drægni annarra véla í flotanum sé 6.850 kílómetrar. Flugleiðin frá Keflavík til Los Angeles er rúmlega 6.900 kílómetrar og því þarf að koma til millilendingar.
Bill Franke, stofnandi og aðaleigandi Indigo Partners, er nú staddur á Íslandi og fundaði í gær með Skúla Mogensen og öðrum starfsmönnum WOW air vegna kaupa á hlut í félaginu sem eru ófrágengin.
