„Mér finnst að þeir eigi virkilega að skoða sinn hug gagnvart því en ég sé dómsmálaráðherra sem skipar ólöglega í dómarastöður og dettur ekki í hug að segja af sér. Ég veit ekki hvenær það er komið að þeim tímapunkti að fólk ákveður að víkja af sínum stóli hér ef við eigum að bera hlutina saman, maður veit eiginlega ekki hvar mörkin liggja hérna,“ sagði Þórhildur Sunna í samtali við Sighvat Jónsson, fréttamann, á Alþingi fyrr í dag.
Sighvatur ræddi einnig við Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, en samflokksmenn hennar, þeir Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, eru á meðal þingmannanna sex sem heyrast á upptökunni. Karl Gauti heyrist meðal annars segja að Inga geti ekki stjórnað.
Spurð út í þau ummæli sagði Inga Karl Gauta eitthvað hafa misskilið hvað hún væri klár stjórnandi. Hún tók fram að hann hefði beðist afsökunar á ummælum sínum og hún trúi því.
„Ég veit ekki betur en að við séum fínasta fjölskylda í Flokki fólksins.“
En er nóg að biðjast afsökunar?
„Nei, það er engan veginn, ekki þannig lagað séð. Þó að ég sé seinþreytt til vandræða og mun náttúrulega taka mark á því þegar ég er beðin afsökunar ef ég held og trúi að það sé gert af heilum hug. En við eigum siðanefnd hérna og það er kannski nákvæmlega svona mál sem eru í rauninni grafalvarlega og kasta mikilli rýrð á okkur og trúverðugleika löggjafans,“ sagði Inga og bætti því við að málið kallaði ef til vill á það að kalla saman siðanefnd Alþingis.
Aðspurð hvort hún teldi að þingmennirnir ættu að segja af sér sagðist Inga ekki ætla að dæma um það.
„Það lýsir þá þeirra siðferði, hvað þeim finnst um slíkt. Ég er ekki einu sinni búin að kynna mér allt það sem fer þarna fram og mér skilst að þetta eigi eftir að koma hér meira fram í ljós í dag og kannski á morgun. [...] Ég er svona að átta mig á þessu og stjórnin okkar kemur saman í dag og Flokkur fólksins og grasrótin, við tökum sameiginlega á svona uppákomu.“
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, sagði í samtali við Fréttablaðið í dag að hann teldi að þingmennirnir ættu að segja af sér. Auk þeirra Karls Gauta og Ólafs er um að ræða þau Sigmund Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Braga Sveinsson, Bergþór Ólason og Önnu Kolbrúnu Árnadóttur.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar, er einn þeirra sem þingmennirnir ræða um með niðrandi hætti. Í samtali við Stundina sagðist hún ekki sjá fyrir sér hvernig þessir menn sitji áfram á Alþingi.