Við eigum að slá frjálslyndistón og brjóta þann vítahring sem umræðan hefur verið í undanfarin misseri. Barátta öryrkja og eldri borgara fyrir ásættanlegum kjörum og umgjörð í lífeyriskerfinu hefur staðið lengi. Þessum tveimur hópum er mismunað í kerfinu, þeir sitja ekki við sama borð og það er áhyggjuefni fyrir samfélagið og gengur ekki upp.
Ekki allir
Sem betur fer býr hluti eldri borgara við ágæt skilyrði á eftirlaunum og þarf ekki frekari fyrirgreiðslu hvað varðar efnahag. Þessi hópur er hins vegar enn sem komið er í minnihluta og við þurfum að setja alla okkar krafta í að bæta aðstæður þeirra sem búa við mjög kröpp kjör, hafa ráðstöfunartekjur sem eru undir skilgreindum framfærslumörkum og lifa við sára fátækt og niðurlægjandi aðstæður.Starfsgetumat
Starfsgetumat er hugtak sem mikið er til umfjöllunar í umhverfi öryrkja. Stjórnvöldum er talsvert í mun að koma þessu matskerfi á laggirnar en í hópi öryrkja eru settir miklir fyrirvarar í ljósi þeirrar reynslu sem þekkt er erlendis frá. Hugmyndafræðin að baki starfsgetumati er í grunninn jákvæð en þar er fremur horft á styrkleika viðkomandi en ekki einblínt á veikleika, það sem viðkomandi getur ekki. Það er hins vegar sveigjanleikinn og afkomuöryggið sem öryrkjar óttast og að fiskur liggi undir steini hjá stjórnvöldum og vinnumarkaði. Þessari tortryggni þarf að eyða en það tekur tíma.Allir vinna
Ég vil leggja til eftirfarandi tillögu: Að stjórnvöld leiti leiða til samkomulags við öryrkja um að farið verði í tilraunaverkefni í 2-3 ár og niðurstaðan og reynslan metin að því loknu. Þannig verði „króna á móti krónu“ skerðingin aflögð strax en þeim lífeyrisþegum sem tök hafa á heimilað að afla launatekna án þeirra skelfilegu og grimmu skerðinga sem þeir hafa búið við til þessa. Ávinningurinn er að mínu mati augljós. Atvinnulífið fær aukinn mannafla til starfa, starfskraftar öryrkja og eldri borgara nýtast á uppbyggilegan hátt og afkoman batnar. Ríkið fær í sinn hlut aukna skatta og tekjur með betri skilum en fyrr.X