„Þessi hegðun mín var algjörlega óásættanleg og ég er miður mín yfir því að hafa hagað mér með þessum hætti. Það að ég hafi verið undir áhrifum áfengis er engin afsökun,“ skrifaði Björn á Facebook í nótt.
Myndbandið umrædda er sjö sekúndna langt. Það er tekið af stúlkunni en er nokkuð óskýrt. Þar virðist Björn Bragi snerta stúlkuna á kynferðislegan hátt. Myndbandið vakti mikla reiði á samfélagsmiðlum seint í gærkvöldi auk þess sem mikil umræða spannst um það í stórum hópum á Facebook.

Segist hafa gengið of langt
Björn Bragi segist hafa sett sig í samband við stúlkuna og fjölskyldu hennar í gærkvöldi og hann hafi beðið hana afsökunar.„Ég bað hana einlægrar afsökunar á framkomu minni. Ég gekk of langt og tek fulla ábyrgð á þessu atviki.“
Björn segist enn fremur hafa átt gott samtal við móður stúlkunnar.
„Hún sagði mér að fjölmiðlar hefðu reynt að ná sambandi við bæði sig og stúlkuna. Hún vildi koma á framfæri ósk um að þau yrðu látin í friði. Það vil ég líka gera. Ég ber alla ábyrgð hér.“

Einn af meðlimum Mið-Ísland
Björn Bragi er 34 ára og hefur undanfarin ár verið spyrill í spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur sem útvarpað er og sýnd í sjónvarpi hjá RÚV.Segja má að hann hafi skotist fram á stjörnuhimininn í menntaskóla.
Þá var hann í sigurliði Verzló í bæði Gettu betur og mælsku- og rökfræðikeppninni Morfís.
Þá hefur hann verið hluti af grínhópnum Mið-Ísland.
Áður ritstýrði hann meðal annars Monitor, fylgiblaði Morgunblaðisns, og sá um sjónvarpsþættina Týnda kynslóðin á Stöð 2.
Fréttin var síðast uppfærð klukkan 8:10.
Færslu Björns Braga má sjá í heild hér að neðan.
Seint aðfaranótt sunnudags hitti ég stúlku sem ég þekkti ekki. Við áttum stutt samskipti og ég snerti hana á ósæmilegan hátt. Af þessu var tekið myndband sem er nú í dreifingu.
Þessi hegðun mín var algjörlega óásættanleg og ég er miður mín yfir því að hafa hagað mér með þessum hætti. Það að ég hafi verið undir áhrifum áfengis er engin afsökun.
Ég setti mig í samband við stúlkuna og fjölskyldu hennar fyrr í kvöld. Ég bað hana einlægrar afsökunar á framkomu minni. Ég gekk of langt og tek fulla ábyrgð á þessu atviki.
Ég átti gott samtal við móður stúlkunnar. Hún sagði mér að fjölmiðlar hefðu reynt að ná sambandi við bæði sig og stúlkuna. Hún vildi koma á framfæri ósk um að þau yrðu látin í friði. Það vil ég líka gera. Ég ber alla ábyrgð hér.