Skoðun

Með ljósin kveikt

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar
Haustið er erfiður tími fyrir okkur myrkfælna fólkið. Í myrkrinu leynast hætturnar nefnilega nokkurn veginn alls staðar. Auðvitað er til það fólk sem finnst rökkrið huggulegt og við kertaljós vopnuð nokkrum rauðvínsflöskum getur það svo sem verið. Flestar stundir sitjum við samt stjörf af hræðslu, viðbúin hinu allra versta.

Það þarf að opna umræðuna um okkur sem sofum með ljósið kveikt á svefnherbergisganginum. Þvoum þvottinn að morgni því við höfum ekki taugar í þvottahúsið í kjallaranum á kvöldin. Förum helst ekki út eftir rökkur nema að tala við einhvern í síma. Horfum ekki á draugamyndir eða einhvern skepnuskap í sjónvarpinu á kvöldin því söguhetjurnar eiga það til að verða eftir í stofunni þegar myrkrið skellur á. Lítum ekki Bruce Willis sömu augum eftir að hann reyndist draugur í einni bíómyndinni. Getum ekki treyst honum. Og getum ekki sofið með drauga gangandi um stofuna.

Auðvitað fer maður ekki alveg óundirbúinn inn í haustið, því hætturnar hafa leynst víðar. Sem barn hræddist ég unglinga. Í dag frekar tölvupóst. Finnst erfitt að ýta á send því pósturinn gæti farið eitthvert vitlaust. (Hef óvart sent fundarboð á hálft stjórnkerfið sem og starfsmenn Reykjavíkurborgar og er að vinna mig frá þeim kvíða.) Hræðist hurðir á almenningssalernum og kíki ofan í klósettskálar, þar gætu leynst rottur. Hræðist lífsógnandi smit sem Google-leitin sefar sjaldnast óttann við. Er hrædd við hákarla í sundi en sit örugg í heita pottinum og fylgist með hvort kríur sjáist á flugi. Ég fer varlega í lífinu og vil ekki glannaskap. Og þó ég geti kannski ekki synt mér til heilsubótar hleyp ég allt sem ég fer á haustin. Logandi hrædd að vísu.




Skoðun

Sjá meira


×