Erlent

Kona særði fjórtán leikskólabörn í hnífaárás

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Chongqin-hérað er merkt með rauðu á kortinu.
Chongqin-hérað er merkt með rauðu á kortinu. Skjáskot/Google Maps
Að minnsta kosti fjórtán börn eru særð eftir að kona réðst að þeim á leikskóla í Chongqing-héraði í suðvesturhluta Kína í morgun. Lögregla segir að konan sé þrjátíu og níu ára gömul og að hún hafi komið inn á skólalóðina vopnuð hnífi þegar börnin voru úti að leika.

Ekki er ljóst hver ástæða árásarinnar er en kínverskir miðlar hafa þó ýjað að því að konan hafi staðið í einhvers konar deilum við stjórnvöld. Konan var handtekin á vettvangi.

Í myndbandi sem deilt var á samfélagsmiðlum má sjá særð börn flutt á sjúkrabörum út úr skólanum. Sum þeirra virðast hafa hlotið stungusár í andlitið.

Þá hefur lögregla hafnað því að tvö börn hafi látist í árásinni en orðrómar þess efnis höfðu komist á kreik á samfélagsmiðlum.

Ofbeldisglæpir eru tiltölulega fátíðir í Kína en hnífaárásir þar sem margir láta lífið eða særast hafa þó verið óvenju tíðar þar síðustu árin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×