Eldur hefur komið upp í ferju í Eystrasalti með 335 manns um borð. Frá þessu greinir talsmaður litháíska hersins í samtali við Sky News.
Ekki liggja fyrir upplýsingar um umfang eldsins eða um fjölda slasaðra. Eldurinn á að hafa komið upp eftir að sprenging varð í vélarrúmi.
Ferjan ku vera á rússnesku yfirráðasvæði fyrir utan Kaliningrad. Ferjan var á leið frá borginni Kiel í norðurhluta Þýskalands til Klaipėda í Litháen.
Björgunarlið frá Rússlandi og Litháen taka þátt í björgunaraðgerðum.
Misvísandi upplýsingar
Ferjan er í eigu danska skipafélagsins DFDS. Í frétt Sky News er haft eftir talsmanni skipafélagsins að 293 farþegar og 42 áhafnarmeðlimir séu fastir um borð eftir að vélarbilun varð í einu skipi félagsins í Eystrasalti. Talsmaðurinn minntist ekki á að það hafi orðið sprenging. Einungis leggi reyk frá vélinni.
Aftonbladet hefur eftir rússneskum fjölmiðlum að farþegunum hafi verið komið fyrir á öruggu svæði um borð í ferjunni. Búið sé að slökkva á vélum skipsins sem rekur nú á Eystrasalti.
Ferry carrying 335 people on fire in Baltic Sea https://t.co/Kl5qf92ChQ
— Sky News (@SkyNews) October 2, 2018