Viðskipti innlent

Hagræðing VÍS árás á landsbyggðina

Sigurður Mikael Jónsson og Jónas Torfason skrifar
VÍS stefnir á að sameina og loka útibúum.
VÍS stefnir á að sameina og loka útibúum. Fréttablaðið/Anton
Vátryggingafélag Íslands (VÍS) hefur ákveðið að loka átta skrifstofum sínum á landsbyggðinni. Er það liður í endurskipulagningu fyrirtækisins þar sem gert er ráð fyrir að þjónustan fari meira fram í gegnum net og síma.

Af þeim átta skrifstofum sem lokað verður verða sex sameinaðar öðrum, en tveimur alveg lokað, á Höfn og í Vestmannaeyjum. Þrettán umboðsskrifstofum víða um land verður sömuleiðis lokað.

Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA.Fréttablaðið/Anton Brink
VÍS mun einnig segja upp samningum við svokallaða umboðsmenn sína víða um land, alls þrettán­ talsins, en þeir verktakar sinntu umboðsstarfi fyrir VÍS og sáu til dæmis um að útvega viðskiptavinum tilboð í tryggingar eða hittu viðskiptavini og fór yfir endurnýjun. Áform VÍS féllu í grýttan jarðveg þegar tilkynnt var um þau í gær.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sagði í samtali við Fréttablaðið.is í gær að hann íhugaði alvarlega að færa viðskipti sín annað. En VÍS hyggst loka umboðsskrifstofu sinni á Akranesi.

„Ugglaust mun stjórn Verkalýðsfélags Akraness skoða hvort það verði einnig gert með allar tryggingar félagsins hjá VÍS. Það er algjörlega óþolandi að þegar verið er að leita hagræðingar þá er ætíð ráðist á landsbyggðina og þeirri þróun verða neytendur á landsbyggðinni að svara af fullum krafti,“ segir Vilhjálmur og spyr hver hagræðingin sé í að missa fjölda viðskiptavina. – smj, jt


Tengdar fréttir

Uppsagnir og lokanir hjá VÍS

Tryggingafélagið VÍS mun loka rúmlega helmingi skrifstofa sinna og segja upp starfsfólki .






Fleiri fréttir

Sjá meira


×