Erlent

„Hundrað prósent“ viss um að Kavanaugh hafi reynt að nauðga henni

Samúel Karl Ólason skrifar
Chrisstine Blasey Ford við upphaf nefndarfundarins.
Chrisstine Blasey Ford við upphaf nefndarfundarins. AP/Andrew Harnik
Christine Blasey Ford sagðist „hundrað prósent“ viss um að það hafi verið Brett Kavanaugh sem hafi reynt að nauðga henni fyrir 36 árum. Þá sagðist hún muna til þess að Kavanaugh og vinur hans Mark Judge hafi hlegið á meðan að á hinni meintu árás stóð. Frásögn hennar gæti komið í veg fyrir tilnefningu Kavanaugh til Hæstaréttar.

Ford bar vitni fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í dag og mun Kavanaugh gera það einnig seinna í kvöld. Hann hefur neitað ásökunum minnst þriggja kvenna sem hafa sakað hann um kynferðisbrot.

Ford sagði að Kavanaugh hefði haldið henni niðri, haldið hendi sinni yfir munni hennar og reynt að klæða hana úr fötunum þegar þau voru í samkvæmi árið 1982, þegar þau voru í menntaskóla. Judge segist ekki muna eftir atvikinu en að öðru leyti hefur hann neitað að tjá sig og hann neitaði einnig að mæta fyrir þingnefndina.

Ford sagði enga pólitíska ástæðu fyrir því að hún hafi stigið fram og rifjað upp atvikið, eins og fjölmargir Repúblikanar og þar á meðal Donald Trump, forseti, hafa haldið fram.

Til stendur að kjósa um tilnefningu Kavanaugh á morgun en ekki liggur fyrir hvaða áhrif fundurinn í dag og vitnisburður Ford og Kavanaugh mun hafa. Nokkrir þingmenn Repúblikanaflokksins hafa lýst yfir að þeir séu óvissir um hvort þeir muni veita Kavanaugh atkvæði sitt en meirihluti Repúblikana er mjög naumur á öldungadeildinni, 51-49.

Þar að auki hafa Repúblikanar sagt við fjölmiðla ytra í dag, á meðan á fundinum stendur, að svo virðist sem að saga Ford muni koma verulega niður á tilnefningu Kavanaugh. Washington Post segir Bandaríkjamenn um allt land fylgjast með fundinum af miklum áhuga.



Vildi ekki stíga fram í fyrstu

Repúblikanar í nefndinni sem eru ellefu og allir karlmenn réðu saksóknarann Rachel Mitchell til að spyrja Ford spurninga og byrjaði hún á því að lýsa yfir vorkunn með Ford. Áður hafði Charles E. Grassley, formaður nefndarinnar, fordæmt morðhótanir sem bæði Ford og Kavanaugh hafa fengið en hann fordæmdi sömuleiðis hvernig Demókratar hefðu meðhöndlað ásakanir Ford.

Ford hafði aldrei ætlað að stíga fram opinberlega en hún var í raun dregin fram í sviðsljósið þegar bréf hennar til Dianne Feinstein, æðsta Demókratans í nefndinni var opinberað. Þar sagði hún fyrst frá hinni meintu árás.

Þá sagði Grassley að Demókratar hefðu neitað að starfa með Repúblikönum við rannsókn ásakana gagnvart Ford.

Þegar Ford hóf mál sitt var ljóst að henni þótti erfitt að vera á nefndarfundinum og sagðist hún ekki vilja vera stödd þarna. Hún sagðist ekki hafa svör við öllum spurningum og hún mundi ekki eins mikið frá umræddu kvöldi og hún vildi. Hins vegar myndi hún aldrei gleyma lykilatriðunum.

Hún talaði um samkvæmið og nefndi hún aðra sem hún sagði hafa verið þar.

Óttaðist um líf sitt

Ford lýsti sömuleiðis árásinni og sagði þá Kavanaugh og Judge hafa læst herberginu sem þau voru í og hækkað í tónlistinni sem var verið að spila þar. Þá hafi hann reynt að nauðga henni en henni hafi tekist að flýja úr herberginu.

„Ég var sannfærð um að hann ætlaði að nauðga mér,“ sagði Ford. Hún sagðist svo hafa óttast um líf sitt.

Hún var fimmtán ára á þessum tíma og segist ekki hafa þorað að segja foreldrum sínum frá árásinni.

„Ég sannfærði sjálfa mig um að þar sem Brett hefði ekki nauðgað mér, ætti ég bara að líta fram hjá þessu.“

Þá sagðist Ford ekki hafa viljað koma fram og að hún hefði óttast að ásakanir hennar myndu hverfa í hafi stuðningsmanna Kavanaugh. Hún fór einnig yfir viðbrögðin við ásökununum og sagðist ekki hafa átt von á því að þau yrðu eins slæm og raunin varð. Fjölskylda hennar hefur þurft að flýja heimili þeirra vegna hótana.

 


Tengdar fréttir

Tekist á um fjórðu ásakanirnar í garð Kavanaugh

Dómsmálanefnd öldungardeildar Bandaríkjaþings spurðist fyrir um enn einar ásakanir í garð Brett Kavanaugh eftir að nafnlaust bréf barst þingmanni þess efnis að hæstaréttardómaraefnið hefði kynferðislega áreitt konu í Washington árið 1998.

Svarar Trump með frásögn af nauðgun, skömm og þöggun

Bandaríska sjónvarpskonan Padma Lakshmi greinir frá því hvers vegna hún tilkynnti ekki um það þegar henni var nauðgað á unglingsárunum í pistli sem birtist í dagblaðinu New York Times í morgun.

„Ég er dauðhrædd“

„Ég er ekki hér í dag vegna þess að ég vill það. Ég er dauðhrædd,“ er meðal þess sem Christine Blasey Ford mun segja er hún les yfirlýsingu fyrir framan dómsmálanefnd öldungardeildar Bandaríkjaþings á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×