Innlent

Stjórnarmanni RÚV blöskrar tillögur ráðherra

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mörður Árnason er stjórnarmaður RÚV
Mörður Árnason er stjórnarmaður RÚV Visir/Vilhelm
Mörður Árnason, stjórnarmaður RÚV, telur að stjórn RÚV þurfi að koma saman sem allra fyrst til þess að fjalla um tillögur menntamálaráðherra sem kynntar voru í dag. Hann segir vinnubrögð ráðherra vera „skrýtin“

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti í dag aðgerðir sem miða að því að bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. Verja á um 400 milljónum til þess auk þess sem draga á úr umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði um 560 milljónir króna.

„Enginn af stjórnendum RÚV virðist hafa verið látinn vita af þessu fyrir blaðamannafundinn í dag, þrátt fyrir hlý orð ráðherrans í garð Ríkisútvarpsins fyrr og síðar og beinar yfirýsingar um bætta stöðu þegar á líður. Þetta eru skrýtin vinnubrögð,“ segir Mörður í samtali við Vísi.

Þá segir Mörður að jafnvel þótt hann sjálfur sé fylgjandi því að minni hluti tekna RÚV komi frá auglýsingum hafi ráðherra ekki slegið því föstu að slík skerðing verði bætt, né lýst því með hvaða hætti það geti orðið. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019 kemur þó fram að hækka eigi útvarpsgjald um 2,5 prósent sem svarar til um 534 milljóna króna. 

„Þessu verður ráðherrann að svara, bæði stjórnendum RÚV, starfsmönnum og almenningi, í framhaldi af tilkynningu sinni í dag. Þá er mikilvægt að fram komi hvort ríkisstjórnin stendur sem heild að þessum aðgerðum,“ segir Mörður og spyr hvort Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra styðji tillögur Lilju.

Stjórn RÚV þurfi því að koma saman til þess að ræða tillögurnar sem allra fyrst að mati Marðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×