Wow Air tapaði 45 milljónum dollara, jafnvirði 4,9 milljarða króna, á tímabilinu frá júlí 2017 til júní 2018 að því er fram kemur í fjárfestakynningu sem félagið lét vinna í tengslum við skuldabréfaútboð félagsins hjá norska verðbréfafyrirtækinu Pareto Securities. Fyrst var greint frá þessu í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í dag.
Í fjárfestakynningunni, sem vefmiðillinn Kjarninn birti í dag, kemur fram að Wow Air stefni á að gefa út ný skuldabréf í útboðinu til evrópskra fjárfesta fyrir 500-1000 milljónir sænskra króna, jafnvirði 6-12 milljarða íslenskra króna.
Nýjar og áður óbirtar upplýsingar um rekstur Wow Air koma fram í fjárfestakynningunni. Auk upplýsinga um 4,9 milljarða króna tap á síðustu 12 mánuðum kemur fram að eigið fé Wow Air hafi numið aðeins 14 milljónum dala í lok júní á þessu ári, jafnvirði rúmlega eins og hálfs milljarðs króna. Eigið fé félagsins var 5,9 milljarðar í lok árs 2016 og hefur því rýrnað um 4,4 milljarða króna síðan þá.

Allar vélar í flugflotanum leigðar
Eins og fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis greindi frá á mánudag var hlutafé Wow Air aukið um rúmlega helming fyrr á þessu ári þegar Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi Wow Air, lét breyta tveggja milljarða króna kröfu Títan fjárfestingafélags á hendur Wow Air í hlutafé. Samhliða þessu færði hann 60 prósenta hlut í Cargo Express ehf. undir Wow Air.Í fjárfestakynningunni kemur fram að allur flugfloti félagsins, alls tuttugu Airbus þotur, er leigður. Félagið á því í raun fáar veðhæfar eignir. Ólíkt til dæmis Icelandair sem á stóran hluta eigin flugflota og getur því notað þoturnar sem veðandlag ef þörf þykir.
Sjóðstreymi sýnir innstreymi og útstreymi handbærs fjár. Handbært fé er býsna lítið hjá Wow Air miðað við fjárfestakynninguna en félagið átti aðeins 6 milljónir dollara í handbært fé í lok júní á þessu ári. Til samanburðar átti Icelandair Group 237,1 milljón dollara í handbært fé í lok júní samkvæmt 6 mánaða uppgjöri félagsins. Að þessu sögðu er ekki útilokað að Wow Air geti lent í alvarlegum sjóðstreymisvanda ef ekkert breytist í rekstri félagsins.
Að einhverju leyti skýrist lítið handbært fé hjá Wow Air af þeirri staðreynd að færsluhirðar skilgreina áhættu gagnvart flugfélögunum tveimur með mismunandi hætti. Í tilviki Wow Air er 80-90% af upphæð vegna greiddra fargjalda haldið eftir þangað til flugferð hefur verið farin. Í tilviki Icelandair fær félagið alla upphæðina strax greidda inn á reikninga félagsins, eins og fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis greindi frá í síðasta mánuði.
Í fjárfestakynningunni kemur fram að skuldabréfaútboðið sé hugsað sem brúarfjármögnun fram að fyrirhuguðu hlutafjárútboði og skráningu Wow Air á hlutabréfamarkað á næstu átján mánuðum.
Skúli Mogensen er um þessar mundir á fundaferð um Evrópu ásamt öðrum stjórnendum Wow Air til að kynna félagið fyrir fjárfestum í tengslum við skuldabréfaútboðið hjá Pareto Securities. Svanhvít Friðriksdóttir upplýsingafulltrúi Wow Air segir að félagið muni ekki tjá sig um fjármögnun þess að svo svo stöddu.