Til samanburðar hækkaði verð á flugeldsneyti um 36 prósent á fyrri helmingi þessa árs en í kynningunni segir að hækkanirnar séu helsti „mótbyrinn“ í rekstri flugfélagsins enda hafi félaginu ekki tekist að mæta þeim með því að hækka flugfargjöld.

„Það er vissulega ástæða til þess að hafa áhyggjur af því hvort sum flugfélög séu í stöðu til þess að mæta hækkunum á olíuverði,“ segir hann.
Olíukostnaður nam um 25 prósentum af tekjum WOW air í fyrra, að því er segir í fjárfestakynningunni, en sambærilegt hlutfall hjá Icelandair var um 17 prósent.
Ólíkt helstu keppinautum sínum í Evrópu, þar á meðal Icelandair, ver WOW air ekki eldsneytiskaup sín fyrir sveiflum í olíuverði. Í kynningunni er bent á að WOW air etji ekki aðeins kappi við evrópsk flugfélög heldur jafnframt bandarísk félög sem verji jafnan ekki eldsneytiskaup sín. Til viðbótar sé floti flugfélagsins sparneytinn og þá hafi félagið gripið til ýmissa aðgerða sem hafi minnkað eldsneytisnotkun þess.

Þurfa að vera fjárhagslega sterk
Sveinn segir að flugfélög sem verji ekki eldsneytiskaup sín fyrir sveiflum í olíuverði þurfi að vera fjárhagslega í stakk búin til þess að taka á móti sveiflunum.Hann bendir á að þau bandarísku félög sem verja ekki kaup sín séu að jafnaði fjárhagslega sterk og með góðan aðgang að fjármagni ef í harðbakkann slær.
Eiginfjárhlutfall WOW air var aðeins um 4,5 prósent í lok júní á þessu ári borið saman við 10,9 prósent í lok síðasta árs. Afkoma flugfélagsins hefur farið versnandi það sem af er ári en í fjárfestakynningunni er upplýst um að EBITDA félagsins – afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – hafi verið neikvæð um 26 milljónir dala frá júlí í fyrra til júní síðastliðins. WOW air skilaði tapi upp á 22 milljónir dala, jafnvirði um 2,4 milljarða króna, í fyrra en verð á flugeldsneyti hækkaði um 20 prósent á árinu.
Fastlega er búist við því að olíuverð haldi áfram að hækka á næstu mánuðum en sem dæmi spá greinendur stórbankans Morgan Stanley því að heimsmarkaðsverð á Brent-hráolíu verði að meðaltali 85 dalir á fatið á síðustu sex mánuðum þessa árs. Til samanburðar er verðið nú um 72 dalir á fatið en það var 67 dalir í byrjun ársins. Sérfræðingar bankans telja að nýlegar viðskiptaþvinganir Bandaríkjastjórnar gagnvart Íran muni draga verulega úr framleiðslugetu síðarnefnda ríkisins og skerða þannig framboð á olíu á heimsmarkaði.
„Á meðan hefur eftirspurnin verið sterk og má búast við að hún aukist enn frekar á seinni helmingi ársins,“ segir Martijn Rats, greinandi hjá Morgan Stanley, í samtali við CNBC.
Sveinn nefnir að hækkandi olíuverð eigi að endingu að koma fram í hærri flugfargjöldum. Það hafi hins vegar ekki gerst enn þá. WOW air og önnur flugfélög, sér í lagi þau sem verja ekki kaup sín á eldsneyti, bindi væntanlega vonir sínar við að fargjöld taki að hækka sem fyrst.

Von á verri kjörum en í útboðum annarra félaga
Búast má við því að þau kjör sem WOW air munu bjóðast í fyrirhuguðu skuldabréfaútboði verði talsvert lakari en kjörin sem helstu keppinautum félagsins hafa boðist á undanförnum misserum, að mati viðmælenda Fréttablaðsins á fjármálamarkaði.Sem dæmi jafngildir verð skuldabréfa lággjaldaflugfélagsins Norwegian Air um 800 punkta álagi á LIBOR-vexti um þessar mundir en viðmælendur blaðsins telja fullvíst að kjörin í skulda- bréfaútboði WOW air verði vel yfir 1.000 punktum ofan á milli- bankavexti. Eins og greint var frá í Markaðinum í gær er áætlað að stærð útboðsins verði á bilinu 500 til 1.000 milljónir sænskra króna.