Sex milljón dollara fjárfesting Kobe Bryant fyrir rúmum fjórum árum hefur þrjátíufaldast á þessum tíma og skilað körfuboltagoðsögninni 200 milljónum dollara.
Kobe Bryant fjárfesti á sínum tíma í íþróttadrykknum BodyArmor en hann keypti tíu prósent í fyrirtækinu fyrir sex milljónir dollara. Þá var fyrirtækið að selja vörur fyrir tíu milljón dollara á ári en nú seljast BodyArmor drykkir fyrir 400 milljón dollara á ári hverju.
Bryant hafði mikla trú á BodyArmor drykknum og það var greinilega ekki af ástæðulausu. Coca-Cola hefur nú keypt hlut í fyrirtækinu og ESPN hefur eftir heimildarmanni sínum að samkvæmt því kaupverði er hlutur Kobe Bryant nú metinn á 200 milljón dollara.
.@kobebryant's investment in BodyArmor has yielded more than 30 times its money in fewer than 4.5 years. pic.twitter.com/B3tf0xGF5u
— ESPN (@espn) August 16, 2018
Kobe Bryant fjárfesti líka í heimildarmyndinni „Dear Basketball“ í mars 2014 og sú mynd skilaði honum Óskarsverðlaunum. Ekki slæmur viðskiptamánuður fyrir kappann.
Kobe er ekki eini íþróttamaðurinn sem hefur fjárfest í BodyArmor því það hafa einnig gert þeir James Harden, Dustin Johnson og Andrew Luck.
Kobe Bryant lék í tuttugu ár í NBA-deildinni og fékk fyrir það 328 milljónir dollara. Hann fékk líka svipað mikið í aukatekjur á farsælum ferli sínum. Hann hefur síðan farið að reyna fyrir sér í viðskiptalífinu.
Kobe Bryant stofnaði fjárfestingafélagið Kobe Inc. eftir að körfuboltaskórnir fóru upp á hillu og sigurganga hans innan vallar ætlar greinilega að halda áfram utan vallar.