Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur hvorki virkjað rýmingaráætlun né neyðaráætlun vegna hlaups í Skaftá. Hættustig er einnig óbreytt. Ekkert hefur verið rætt um að rýma hálendið í kringum Skaftárjökul.
Veðurstofan tilkynnti í gær að Skaftárhlaup væri hafið og að hlaupið brytist væntanlega undan jöklinum aðfaranótt morgundagsins, það nái svo hámarki snemma á sunnudag. Samkvæmt Veðurstofunni er þó útlit fyrir að hlaupið verði minna en hlaupið 2015 þar sem styttri tími líður nú á milli hlaupa.
Friðgerður Brynja Jónsdóttir, lögreglufulltrúi Almannavarna, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að ekki stæði til að rýma svæðið. „Það stendur ekki til að rýma neitt, það er í rauninni engin byggð þarna,“ sagði hún og bætti við að ekki hefði verið rætt um rýmingu hálendis í kringum Skaftárjökul.
Varað var sérstaklega við því í tilkynningu Veðurstofunnar að hlaup gæti orðið í Hverfisfljóti ef hlaup kemur að hluta undan Síðujökli. Þá kæmi hlaupið fram við brúna á þjóðvegi 1 en ekki er talið líklegt að svo verði.
Einnig var varað við brennisteinsvetni í hlaupvatninu og sprungumyndun í kringum ketilinn og var ferðafólki því ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals, jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls sem og kötlunum sjálfum.