Fyrirtækið var sakað um að hafa veitt steypireyði í júlí. Síðar kom hins vegar í ljós að dýrið var afkvæmi steypireyðar og langreyðar. Hvalur hf. hefur aðeins heimild til þess að veiða langreyðar en bannað er að veiða steypireyðar.
Samtökin vísa einnig til þess að verkunin á langreyðakjöti hafi ekki fullnægt skilyrðum reglugerða frá júní 2010 til maí á þessu ári. Fréttablaðið greindi frá því í vikunni að Hvalur hf. hafi aldrei fylgt hertum reglum um hvalskurð sem tóku gildi árið 2010 og jafnframt að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, hafi slakað á kröfunum um hvalskurð í byrjun sumars.
Bent er á í kærunni að brot gegn veiðileyfi Hvals hf. varði sviptingu þess tímabundið eða varanlega. Krefjast þau þess að ríkissaksóknari taki háttsemi fyrirtækisins til rannsóknar og beiti þvingunarráðstöfunum á grundvelli veiðileyfisins.
Vilja láta reyna á hvort leyfilegt sé að veiða blending
Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Jarðarvina, segist telja að Hvalur hf. hafi brotið gegn lögum og veiðileyfi sínu þegar fyrirtækið veiddi blendinginn í sumar.„Veiðileyfið takmarkast við langreyðar. Það er engin undanþága frá því í veiðileyfinu eða annars staðar. Við teljum vert að láta reyna á það hvort að þetta sé refsivert að veiða hval þó að hann sé blendingur ef hann heyrir ekki undir það að vera langreyður,“ segir Ragnar.
Þá dregur hann í efa að ráðherra hafi mátt breyta reglugerð um hvalskurð í byrjun sumars. Reglugerðin eigi sér stað í lögum. Slíkar reglur séu gjarnan sóttar í alþjóðlegt regluverk, ekki síst evrópskt.
„Þá er það spurning hvort að það er einhvers staðar heimild til að veita undanþágu frá þeim reglum með stjórnvaldsákvörðun,“ segir Ragnar.