„Markmiðið með þessum fundi var að rýna í stöðuna og fá heildarmynd af hverjum þætti fyrir sig,“ segir Gunnlaugur A. Júlíusson, sveitarstjóri Borgarbyggðar, í samtali við Vísi. Á fundinn mættu íbúar auk fulltrúa lögreglunnar og almannavarna, Landsbjargar, Veðurstofunnar, Landgræðslunnar, Hafrannsóknarstofnunnar, Bændasamtakanna og Náttúruhamfaratryggingar.
„Menn þakka fyrir að þarna hafa ekki orðið manntjón fyrst að þetta gerist á annað borð. Auðvitað er margt sem þarna breytist. Áin breytir um farveg að töluverðu leyti. Það er svona tuttugu prósent árinnar sem verða fyrir varanlegum áhrifum af þessu. Hún náttúrulega stíflast og tæmist á tíu kílómetra kafla.“ segir Gunnlaugur um hvað helst hafi borið á góma á fundinum.

Tuttugu jarðir sem eiga hagsmuna að gæta vegna veiði í ánni
Hítará hefur fundið sér nýjan farveg framhjá skriðunni miklu sem féll úr Fagraskógarfjalli á laugardaginn. Vatnið leitar nú í Tálma, hliðará Hítarár. Þaðan sameinast áin svo aftur sínum gamla farveg þar sem Tálmi sameinaðist Hítará. Áin er vinsæl veiði á og ljóst að hamfararnir muni hafa töluverð áhrif á veiði í ánni.„Laxastiginn við Kattafoss er náttúrulega þurr og ónýtur en það á eftir að koma í ljós hvernig áin þróast,“ segir Gunnlaugur. Það eru þarna hátt í tuttugu jarðar sem hafa hagsmuna að gæta. Svo eru náttúrulega leyfishafar sem að málinu tengjast.“
Á fundinum kom fram að sérfræðingar í ferksvatnslífríki hjá Hafrannsóknarstofnun telji að áhrif skriðunnar á fiskinn í ánni muni ekki koma fram fyrr en eftir tvö ár. Seyðin séu þegar farin í sjóinn og í ljós verði að koma hvað gerist þegar þau gangi aftur, hvort hann geti gengið upp í gegnum hraunið þar sem áin nú rennur og hvort mögulega þurfi að byggja nýja laxastiga.

Fjarskiptaleysi í dalnum hefði gert stærri aðgerðir mjög erfiðar
Að mörgu er að huga fyrir heimamenn og þær stofnanir sem koma að málinu og segir Gunnlaugur að Landgræðslan sé meðal annars farin að huga að því hvernig koma megi í veg fyrir moldrok eftir skriðuna. Þá hafi lögregla á svæðinu áhyggjur af því hversu lélegt fjarskiptasamband sé í dalnum. Ljóst sé að ef slys hefðu orðið á fólki vegna skriðunnar hefði lélegt fjarskiptasamband flækt aðgerðir mjög.„Það kom í ljós að fjarskiptasamband við Hítardal er algjörlega óviðunandi. Ef að hefði verið stór aðgerð með miklum samskiptum og þörf á fjarskiptum hefði það verið stórmál. Þarna er mikil umferð, það er mikið sótt í vatnið í veiði á sumrin og svo framvegis. Menn stóðu þá frammi fyrir því að einhver stærri aðgerð hefði verið mjög erfið inn í dalnum vegna fjarskiptaleysis.“
Líkt og komið hefur fram hefur myndast töluvert lón þar sem skriðan stíflaði Hítará og segir Gunnlaugur ljóst að það sé komið til þess að vera. Það sé hins vegar verkefni heimamanna að finna nýtt nafn á lónið.